beint flug til Færeyja

Starfshópur leggur til að Akureyri verði svæðisborg

Starfshópur leggur til að Akureyri verði svæðisborg

Starfshópur sem skipaður var til að greina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrslu um verkefnið í gær. Megintillaga starfshópsins er að Akureyri verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.

Í skýrslunni segir að slík tilhögun tryggi best sjálfbæra þróun allra byggða á Norðurlandi og austur um land og skapa nýja og áhugaverða valkosti í búsetu á Íslandi og styrkja þar með samkeppnisstöðu Íslands í heild gagnvart útlöndum.

Starfshópurinn leggur til að Akureyri verði þannig sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Þetta nýja byggðastig mun auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar, segir í skýrslunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að tillögur starfshópsins muni verða teknar til gaumgæfilegrar skoðunnar. „Ég þakka starfshópnum fyrir góða fræðilega úttekt og vel mótaðar tillögur. Skýrslan er mikilvægt framlag í umræðu og aðgerðir til að efla byggðarlög og búsetu um allt land. Akureyri er höfuðból Norðurlands og gegnir þýðingarmiklu hlutverki á sínu svæði og fyrir landið allt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

Í skýrslunni segir að svæðisborg sé „þéttbýliskjarni sem er það stór að þar þrífast sjálfbær atvinnutækifæri og þjónusta á flestum sviðum daglegs lífs og almenningur hefur tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menntunar, menningar og mannlífs og býður upp á greiðar samgöngur milli landshluta og til útlanda“.

Átta áhersluatriði til stuðnings aðaltillögu:

Til stuðnings við aðaltillögu sína um svæðisbundið hlutverk Akureyrar dregur starfshópurinn fram átta áhersluatriði.

  • Samgöngumál: Reglulegt millilandaflugi fari í fastan farveg  sem fyrst, stjórnvöld tryggi að áframhaldandi uppbyggingu  og að framlög séu næg til að tryggja aðra flugtengingu inn í landið.   
  • Raforka: Ágreiningur um flutningsleiðir sem tryggja afhendingaröryggi verði leystur.
  • Menning: Að formfest verði með lögum, að hlutur Akureyrar í heildar framlögum til menningarmála sé í einhverju samræmi við áhrifasvæði svæðisborgarinnar og mikilvægi hennar þannig virt í verki. Þetta gæti t.a.m. falist í tvöföldun á framlögum til MAk.
  • Norðurslóðir: Skilgreind verði þau verkefni og það fjármagn sem fylgja þeirri viðurkenningu stjórnvalda að Akureyri sé miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Háskólinn á Akureyri og stofnanir innan málaflokksins á háskólasvæðinu efli samvinnu og sýnileika.
  • Stjórnsýsla: Stjórnsýsla ríkisins verði efld á Akureyrarsvæðinu og skoðað verði að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins þar, samhliða því að haldið verði áfram á þeirri braut að skapa störf sem eru óháð staðsetningu.
  • Menntun: Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum á svæðinu sé tryggt nauðsynlegt fjármagn til rekstrar og aukins fjölbreytileika í námsframboði.
  • Heilbrigðismál: SAk verði gert að háskólasjúkrahúsi.
  • Félagsþjónusta: Aukið verði samstarf milli Akureyrar og annarra sveitarfélaga og unnið að víðtækari útfærslu á notkun velferðartækni á áhrifasvæði svæðisborgar. 
  • Öryggismál: Að starfsemi lögreglu (sérsveitar) verði ef efld samhliða vaxandi borgarsamfélagi og hafinn undirbúningur að byggingu eða opnun fangelsis að nýju.

Hægt er að lesa nánari umfjöllun um verkefnið á vef Stjórnarráðsins með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó