Múlaberg

Stjórnsýslubreytingar hjá Akureyrarbæ – Liggur fyrir að lækka þurfi launakostnað

Stjórnsýslubreytingar hjá Akureyrarbæ – Liggur fyrir að lækka þurfi launakostnað

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu að stjórnsýslubreytingum sem taka gildi um næstu áramót. Breytingarnar fela í sér að stjórnsýsla sveitarfélagsins verði einfölduð og svið sameinuð. Breytingarnar eru hluti af áherslum í samstarfssáttmála bæjarstjórnar um sjálfbæran rekstur. Ýmsar leiðir verða farnar til þess að ná því markmiði og meðal annars liggur fyrir að lækka þarf launakostnað innan sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að sviðum verður fækkað um eitt og munu nýju svið Akureyrarbæjar frá og með 1. janúar 2022 því verða eftirfarandi:

  • Fjársýslusvið
  • Fræðslu- og lýðheilsusvið
  • Mannauðssvið
  • Umhverfis- og mannvirkjasvið
  • Velferðarsvið
  • Þjónustu- og skipulagssvið

Samfélagssvið verður lagt niður og munu verkefni þess deilast niður á fræðslusvið, sem þar eftir heitir fræðslu- og lýðheilsusvið, velferðarsvið og nýtt þjónustu- og skipulagssvið. Stjórnsýslusvið verður lagt niður og skiptast verkefni þess niður á mannauðssvið og þjónustu- og skipulagssvið. Skipulagssvið verður lagt niður sem sjálfstætt svið og verður hluti af nýju þjónustu- og skipulagssviði. Starf sviðsstjóra á þessu nýja sviði verður auglýst laust til umsóknar.

Akureyrarstofa í þeirri mynd sem hún er í dag verður lögð niður en verkefni hennar færast þjónustu- og skipulagssviðs. Einnig verður kjörnum ráðum og nefndum sveitarfélagsins breytt. Frístundaráð og stjórn Akureyrarstofu verða lögð niður. Málefni frístundaráðs færast til fræðslu- og lýðheilsuráðs en málefni stjórnar Akureyrarstofu til bæjarráðs.

Í samstarfssáttmála bæjarstjórnar kemur fram að stefnt verði að sjálfbærum rekstri með ýmsum leiðum og eru stjórnsýslubreytingarnar hluti af þeirri vegferð. Markmiði um lækkun kostnaðar verður m.a. náð með því að einblína á lögbundin verkefni og leggja enn frekari áherslu á innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu. Þá liggur einnig fyrir að lækka þarf launakostnað innan sveitarfélagsins. Frekari upplýsingar um stjórnsýslubreytingarnar má finna á vef Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó