Stórtónleikar í Listagilinu á laugardaginn og FriðarvakaMynd frá Akureyrarvöku 2014. Mynd: Akureyri.net.

Stórtónleikar í Listagilinu á laugardaginn og Friðarvaka

Menningarhátíð Akureyringa, Akureyrarvaka, verður haldin með pompi og prakt um helgina með fjölbreyttri dagskrá víða um bæinn. Stærsti viðburður hátíðarinnar er án efa tónleikarnir á Laugardaginn sem verða á stóru sviði í miðju Listagilinu.

Stórstjörnur koma fram í Gilinu á laugardaginn  

Gestgjafi kvöldsins verður hljómsveitin Vaðlaheiðin sem lofar frábærum tónleikum og fær til sín góða gesti til aðstoðar. Plötusnúðurinn Arnar Ari Lúðvíkson, betur þekktur sem DJ Vélarnar, mætir með vínylplötusafnið sitt og þeytir skífum til að hita upp fyrir stórtónleikana milli 19.30 og 20.45. Tónleikarnir sjálfir hefjast síðan kl. 21.00 og standa til 22.30.

Tónlistarfólkið sem kemur fram er ekki af verri endanum en það eru þau Friðrik Dór, Bríet, Helgi Björns, Eik Haralds og Eyþór Ingi sem stíga á stokk. Kynnir kvöldsins er Sesselía Ólafsdóttir. Húsbandið VAÐLAHEIÐINA skipa Valur Freyr Halldórsson, Summi Hvanndal, Kristján Edelstein, Arnar Tryggvason og Valmar Väljaots. Einnig mun listamaðurinn Tálsýn skreyta nærliggjandi byggingar með litríkum vídeóverkum með aðstoð Exton. Aðalstyrktaraðilar tónleikanna eru Landsbankinn, KEA Hótel Akureyri og Exton.

Friðarvaka 21.00 til 23.30

Á meðan tónleikarnir eru í gangi í gilinu fer einnig fram Friðarvaka í kirkjutröppunum og kvöldsigling með Húna II við Torfunefsbryggju.

Kerti verða tendruð í Kirkjutröppunum. Slysavarnadeildin á Akureyri selur friðarkerti til styrktar tækjakaupum fyrir Björgunarsveitina Súlur. Kertið kostar 1.000 kr. og verða þau seld á setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum og frá kl. 13 í miðbænum. Húni II siglir um Pollinn en brottför er kl. 22.45 og siglingin stendur til miðnættis. Fyrir brottför syngur Kvennakór Akureyrar fyrir gesti.

Heimili Akureyrarvöku á samfélagsmiðlum er finna á facebooksíðu Akureyrarbæjar og á Instagram. Einnig mælum við með að gestir Akureyrarvöku noti myllumerkið #akureyrarvaka #hallóakureyri og #akureyri


UMMÆLI

Sambíó