Stríðsyfirlýsing Sigmundar Davíðs?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það er óhætt að segja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú þingmaður Framsóknarflokksins hafi valdið miklum usla í flokknum með nýjasta útspili sínu.

Sigmundur Davíð býður framsóknarmönnum til veislu á sama tíma og flokkur hans fagnar aldarafmælinu í Þjóðleikhúsinu
Sigmundur Davíð, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra og fyrrum formaður flokksins og forsætisráðherra, afboðaði komu sína á síðustu stundu í morgun á hátíð sem Framsóknarfélag Akureyrar og nágrennis hélt í dag til að fagna 100 ára afmæli Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð tilkynnti framsóknarmönnum í kjördæminu forföll sín með sms-skilaboðum og bauð þeim í sömu skilaboðum til veislu nyrðra föstudaginn 16. desember nk. – nákvæmlega sama dag og á sömu stundu og 100 ára afmælishátíð Framsóknarflokksins fer fram í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík.

Stríðsyfirlýsing sem jafngildir úrsögn úr flokknum?
Margir framsóknarmenn sem Kaffið.is heyrði í, í dag og í kvöld, eru mjög reiðir með þetta útspil Sigmundar en sumir vissulega leiðir líka.

„Svona gerir maður ekki! Eitt er jú að forfallast, það getur komið fyrir á bestu bæjum. En að bjóða jafnframt til eigin veislu á sama tíma og flokkurinn hefur auglýst 100 ára afmælishátíð, það er stríðsyfirlýsing!“ sagði einn forsvarsmanna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í samtali við Kaffið.is. Hann sagðist ekki vilja koma fram undir nafni, því nægar væru deilurnar og samsæriskenningarnar samt.

Þeir framsóknarmenn sem Kaffið.is ræddi við voru á einu máli um að sms-skilaboðin frá Sigmundi Davíð hlytu að draga dilk á eftir sér. Fyrrum formaður flokksins, sem lítilsvirti aldarafmælið með þessum hætti, hlyti að vera á útleið úr flokknum og væri varla líft þar öllu lengur. Hann yrði þá væntanlega þingmaður í eins manns flokki.

Tilviljun eða ásetningur?
Fyrir áhugamenn um stjórnmál má geta þess að eitt atriðið á 100 ára afmælishátíð Framsóknarflokksins í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember nk. er ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi hafði einmitt betur í formannsslag þeirra Sigmundar Davíðs skömmu fyrir kosningar.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þessa máls. Hver mætir í hvaða veislu föstudaginn 16. desember næstkomandi?

Sambíó

UMMÆLI