Svala Hrönn hannaði sína eigin línu: Heimahagar

Svala Hrönn Sveinsdóttir er ungur og efnilegur hönnuður.

Svala Hrönn Sveinsdóttir er 26 ára grafískur hönnuður úr Aðaldal sem hefur sett á markað textíllínuna Heimahagar, sem er innblásin af Biðukollunni. Línan samanstendur af fjórum mynstrum sem prentuð eru á bæði bómul og hör og úr því eru saumuð viskastykki, löberar og púðar. Svala útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2015 og hannaði línuna sem lokaverkefni. Nú í sumar ákvað hún að elta draumana og láta framleiða línuna fyrir alvöru en það hefur gengið vonum framar. Kaffið hafði samband við Svölu og fékk að forvitnast meira um lokaverkefnið, línuna sjálfa og framhaldið.

Hvað fólst í þessu lokaverkefni og hvernig voru viðbrögðin við því? Hvernig kviknaði hugmyndin?
Lokaverkefni í grafískri hönnun er frekar frjálst, þú mátt í rauninni gera hvað sem er, svo lengi sem það tengist grafískri hönnun á einhvern hátt. Hins vegar verður að vera hugmynd á bakvið verkið, eitthvað hugtak, sem þú getur útskýrt fyrir fólki. Ég var ákveðin frá fyrsta degi að hanna einhvers konar mynstur, og ákvað í framhaldi af mikilli hugmyndavinnu að hanna fjögur mismunandi mynstur sem öll eru innblásin af Biðukollunni. Nafnið á línunni, Heimahagar, kemur beint úr Aðaldalnum, en þar eru mínir “heimahagar” og ég á ófáar minningar úr æsku þar sem ég er úti að blása á Biðukollur í sveitinni. Ég held að margir geti tengt við það. Ég lét prenta mynstrin á bómullarefni, og sauma úr þeim púða fyrir útkskriftarsýninguna vorið 2015. Púðarnir fengu mikið lof á sýningunni og margir sem höfðu áhuga á því að vita, hvort eða hvenær línan færi í framleiðslu.

Hvað er á döfinni hjá þér í framhaldinu?
Í sumar var ég á handverksmarkaði á Mærudögum á Húsavík, og á handverkshátíðinni á Hrafnagili, hvort tveggja var mjög skemmtilegt og gefandi og mig langar að gera meira af því! Mér finnst svo ofsalega skemmtilegt að fá að hitta viðskiptavinina mína, spjalla við þá og segja þeim frá línunni, það gerir þetta aðeins persónulegra heldur en þegar maður spjallar við þá í gegnum tölvuna, þannig að ég verð alveg örugglega með á næsta ári líka! Einnig er ég að setja upp nýja heimasíðu með vefverslun og þá verður ennþá þægilegra fyrir fólk að versla í gegnum tölvuna. Draumurinn er að framleiða nýja vöru fyrir jólin, en ég ætla ekki að uppljóstra alveg strax hver hún verður. Einnig hanna ég allar umbúðir, bæklinga og auglýsingar sem tengjast línunni á einhvern hátt og ég er alltaf að uppfæra, hanna eitthvað nýtt og breyta til í þeim efnum, þannig að það eru bara spennandi tímar framundan og vonandi halda Heimahagar áfram að vaxa og dafna.

Svala fær innblásturinn að línu sinni: Heimahagar, frá Biðukollunni.

Hvar er hægt að kaupa vöruna, bara á netinu?
Vörurnar frá Heimahögum fást í Kistu í Hofi, það er líka hægt að kaupa þær beint í gegnum mig, með því að senda mér póst á facebook síðu Heimahaga. Ég sendi hvert á land sem er, og var einmitt að auglýsa um daginn að það er enginn sendingakostnaður í september! Einnig verður hægt að panta í gegnum vefverslun þegar hún verður tilbúin. Það hafa margar verslanir sýnt línunni áhuga og stefnan er að setja hana í sölu á fleiri stöðum innan skamms.

Heimahagar á Facebook: www.facebook.com/heimahagar
Heimahagar á Instagram: @heimahagar


Sambíó

UMMÆLI

Sambíó