„Svolítið eins og lífið í litlum bæ – hlýtt, persónulegt og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast“

„Svolítið eins og lífið í litlum bæ – hlýtt, persónulegt og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast“

Guðlaug Þóra Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá i Gæða- og mannauðsmálum við HA, er næsti viðmælandi í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í skólanum. 


Við hvað starfar þú hjá HA og hversu lengi ertu búin að vera í starfi?
Ég er verkefnastjóri mannauðs- og gæðamála og hef unnið við háskólann síðan 2015, svo ég er búin að starfa hér í rétt rúm 10 ár.

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Það er svolítið eins og lífið í litlum bæ – hlýtt, persónulegt og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast. Hér hafa orðið til alls kyns hópar þar sem starfsfólk gerir eitthvað saman innan sem utan vinnu, t.d. kraftlyftingahópur, karókí og teklúbbur svo eitthvað sé nefnt. Mér finnst gaman hvað maður rekst oft á samstarfsfólk á hinum ýmsu stöðum utan háskólasvæðisins, hvort sem það er í göngutúr, á tónleikum, í Bónus eða jafnvel á flugvellinum. Það sýnir vel hversu tengt samfélagið hér er og einnig hversu fjölmennur vinnustaður þetta er.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Það tók mig tíma að finna út úr því! Ég hef þó alltaf dregist að fólki og samfélagi og leitast við að styðja það eftir bestu getu. Að loknu grunnnámi í Kaupmannahöfn stóð ég frammi fyrir þeirri stóru ákvörðun um hvað ég ætlaði að gera næst, og valdi að fara í meistaranám í mannauðsstjórnun við Copenhagen Business School. Það ferðalag hefur komið mér hingað í HA, þar sem ég sinni mannauðsmálum í allri sinni fjölbreytni – sem er bæði krefjandi, skemmtilegt og gefandi. Ekki skemmir fyrir hvað ég vinn með frábæru fólki.

Guðlaug með samstarfskonum í Gæða- og mannauðsmálum á árshátíð HA

Hvað finnst þér gera HA sérstakan?
Það er háskólasamfélagið. Hér erum við öll í sama liðinu, tökumst á við áskoranir saman – og gleymum ekki að hafa gaman á leiðinni og hlæja saman.

Skemmtilegasta minning þín í HA?
Eftir 10 ár í HA er erfitt að velja einhverja eina minningu en það er ein sem stendur upp úr. Það var þegar ég var hrekkt skemmtilega í vinnunni. Ég hafði verið stödd erlendis og þegar ég kom til baka til vinnu var búið að breyta skrifstofunni minni í jólaland. Búið var að setja upp alls kyns jólaskraut, jólatré og pakka inn öllu lauslegu á skrifstofunni og setja undir jólatréð. Það tók því smá tíma, undir jólatónlist, að finna lyklaborðið og músina aftur til að geta byrjað að vinna þann morguninn.

Uppáhaldsstaður í HA?
Kaffistofurnar í HA. Þar blandast saman samvera, spjall og góð orka. Sama á hvaða kaffistofu ég sest niður er mér alltaf tekið vel og ég er fljótt orðin hluti af samtalinu. Og það er ekki verra þegar kaka er í boði – það setur punktinn yfir i-ið.

Hvaða þrjú orð dettur þér í hug þegar þú hugsar um HA?
Samfélag – samvinna – jákvæðni.

Guðlaug og samstarfskona hennar Hólmfríður Lilja á tónleikum með BlackPink í London

COMMENTS