Tékkland-Ísland í Hofi

Tékkland - Ísland

Tékkland – Ísland

Þriðjudaginn 15. nóvember kl. 20.00 efnir Tónlistarfélag Akureyrar til tónleika í Hömrum sem bera yfirskriftina Tékkland-Ísland en þar er stefnt saman tékkneskri og íslenskri tónlist og tónlistarflytjendum. PiKap strengjakvartettinn frá Tékklandi leikur strengjakvartett eftir Hildigunni Rúnarsdóttur ásamt kvartettum eftir Smetana, Sylvie Bodorová og Jaroslav Krček og fær svo til liðs við sig Eydísi Franzdóttur ástaróbóleikara til flutnings á Divertimento d’Amore eftir tékkneska ungtónskáldið Daniel Pitra.

PiKap strengjakvartettinn kemur frá vestur Tékklandi; frá Pilzen og Karlovy Vary (Karlsbad). Kvartettinn hefur komið víða fram, s.s. á tónlistarhátíðum í Frakklandi, Englandi, Þýskalandi, Ítalíu, Króatíu og Tékklandi, en einnig á Íslandi. Þau léku á tónleikum Tónlistarfélags Akureyrar í Ketilhúsinu árið 2004, við mjög góðar undirtektir og er því tilhlökkunarefni að fá hópinn aftur.

Meðlimir kvartettsins eru virk í tónlistarlífinu í Tékklandi þar sem þau spila í Sinfóníuhljómsveitinni í Karlovy Vary og Óperuhljómsveitinni í Pilzen auk þess að vera virk í kammertónlist, stunda kennslu og hafa leikið þjóðlagatónlist frá blautu barnsbeini.

Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi strengjakvartettinn nr. 1 fyrir PiKap strengjakvartettinn 2011-2012 og frumfluttu þau verkið í Tékklandi árið 2012. Verkið heyrist nú í fyrsta sinn á Íslandi í upprunalegri mynd. Strengjakvartett nr. 2 eftir hið kunna tékkneska tónskáld Bedrich Smetana verður einnig á dagskrá og er virkilega gaman að heyra tékkneska flytjendur leika tónlist hans eins og þeim er í blóð borið, af hita og blóðheitri tilfinningu. Við fáum einnig að heyra nýrri strengjakvartetta: Strengjakvartett nr. 4 eftir Sylvie Bodorovu (1954) sem stundaði m.a. nám hjá Donatoni á Ítalíu og Ton de Leeuw í Amsterdam eins og sum okkar fremstu tónskálda og einnig glænýjan strengjakvartett eftir Jaroslav Krček sem er best þekktur sem sjórnandi hinnar kunnu kammersveitar Musica Bohemica í Prag. Sá kvartett er saminn sérstaklega fyrir PiKap og verður frumfluttur á Íslandi. Síðast en ekki síst er á efnisskrá Divertimento d’Amore eftir Daniel Pitra, 22 ára tékkneskt tónskáld sem hefur m.a. stundað nám við Konservatoríið í Prag. Verkið var samið fyrir Eydísi, ástaróbóið og Pikap strengjakvartettinn 2012 og flutt það ár bæði í Tékklandi og á tónlistarhátíðinni Zeit für Neue Musik – í Bayreuth í Þýskalandi.

Miðaverð er 2.900 kr. Frítt fyrir nemendur og öryrkja, félagsmenn Tónlistarfélags Akureyrar og eldri borgarar fá 20% afslátt. Miðasala á www.mak.is.

Sambíó

UMMÆLI