„Hvar eru þau í dag, fólkið okkar, HA-ingarnir sem hafa flogið á vit ævintýranna að námi loknu? Þetta er spurning sem oft ber á góma starfsfólks Háskólans á Akureyri og erum við öll áhugasöm að vita meira.“ Svo hefst fréttagrein sem birt var á vef HA þar sem rætt er við Kristínu Björk fyrrum nemanda skólans en Kaffið fjallaði nýverið um ráðningu hennar sem persónuverndarfulltrúa HSN og SAk. Lesa má greinina hér eins og hún birtist á vef skólans.
Kristína Björk flutti heim frá Svíþjóð árið 2021 og hóf þá störf hjá Lögmönnum Norðurlandi eftir að hafa stundað fjarnám við HA í lögfræði í nokkurn tíma. Ári síðar kláraði hún BA gráðuna í lögfræði og árið 2024 útskrifaðist hún með meistaragráðu úr sama námi. Í dag starfar hún sem persónuverndarfulltrúi hjá HSN og SAk.
„Ég er ótrúlega þakklát fyrir grunninn sem ég fékk í náminu. Verkefnin voru fjölbreytt og krefjandi – það undirbjó mig vel fyrir þau verkefni sem ég er að fást við í dag“ segir Kristína, sem lauk bæði BA og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri.
Frá Reykjavík til Akureyrar – og svo aftur
Kristína er fædd og uppalin í Reykjavík og flutti fyrst til Akureyrar árið 2014. Eins og áður sagði vann hún hjá Lögmönnum Norðurlandi eftir að hafa verið búsett í Svíþjóð til nokkurra ára. Þaðan var hún meðal annars fengin tímabundið til að starfa sem lögfræðingur á Rektorsskrifstofu hjá Háskólanum á Akureyri – reynsla sem hafði áhrif á starfsval hennar.
„Þar kviknaði áhuginn minn á opinberri stjórnsýslu og persónuvernd. Það var annars konar lagaumhverfi en ég hafði kynnst áður – og það heillaði mig.“
Fyrir stuttu ákváðu Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri að auglýsa saman eftir persónuverndarfulltrúa og var Kristína Björk ráðin í stöðuna. Þar sinnir hún fjölbreyttum verkefnum tengdum fræðslu, eftirliti og ráðgjöf á sviði persónuverndar og segir Kristína gaman að takast á við nýja stöðu hjá tveim stofnunum.
„Meginhlutverkið er að tryggja að HSN og SAk uppfylli kröfur persónuverndarlöggjafarinnar, en hjá þessum stofnunum á sér stað umfangsmikil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga. Öryggi sjúklinga og persónuvernd er þungamiðja í starfsemi þessara stóru stofnana og er óaðskiljanlegur partur af þjónustu HSN og SAk og ganga stofnanirnar mjög langt í að passa upp á persónuvernd sjúklinga. Stafræn þróun hefur í för með sér nýjar áskoranir tengdar persónuvernd og því er svo brýnt að persónuverndarfulltrúi tryggi að öll ný tækni uppfylli kröfur og skyldur persónuverndar.“
Nám sem mótar framtíð
Það var engin tilviljun að Kristína valdi HA – þegar hún hóf námið var hún búsett erlendis og fjarnám var lykilatriði. Hún segir HA hafa verið vel í stakk búinn þegar heimsfaraldurinn skall á og að tæknin hafi gert það að verkum að hægt var að sinna náminu samfellt.
„Ég kynntist frábærum kennurum og stúdentum og byggði upp gott tengslanet – það skiptir svo miklu máli, sérstaklega í lögfræðinni.“
Hún rifjar upp margar góðar minningar frá HA, bæði frá lotum og útskrift – en ein stendur upp úr.
„Að skila meistaraverkefninu mínu gengin 38 vikur – það var sigur! Að fá líka viðurkenningarskjalið í hendurnar var góð minning og það var mikill heiður að vera beðin um að flytja ávarp kandídata við útskriftina.“

Þegar Kristína Björk er að skila meistaraverkefninu gekk hún með fjórða barn þeirra hjóna og hún segir eiginmann sinn, Helga Þór Leifsson, grjótharðan Akureyring og það hafi átt stóran þátt í vali á búsetu. „Akureyri er dásamlegur staður til að ala upp börn og njótum við fjölskyldan þess að vera hér. Við erum heimakær, eldum góðan mat, spilum en við erum líka dugleg að bregða undir okkur betri fætinum og ferðast innanlands sem utan.“

Kristína segir að námið hafi þróast á jákvæðan hátt, m.a. með tilkomu starfsnáms sem hún telur lykilatriði. Sjálf hefur hún líka komið að fræðslu innan HA, bæði með kennslu í persónuvernd og þátttöku í nýju námi tengdu ráðgjöf við fólk með heilabilun.
„Það var ótrúlega gaman að taka þátt í slíku verkefni og skila til baka til skólans sem gaf mér svo mikið.“
Að lifa í náminu – ekki bara að klára það
Kristína hvetur öll sem íhuga lögfræði til að „kýla á það“ og ekki gleyma að njóta tímans í námi.
„Það er svo mikilvægt að vera forvitinn, spyrja spurninga og nýta tímann vel. Það er ekki bara markmiðið að klára – heldur að læra, tengjast og vaxa. Ég trúi virkilega að það sé ferðalagið sem skiptir máli.“
Þrátt fyrir að hafa mikinn áhuga á persónuvernd og heilbrigðisrétti – sem hún viðurkennir að séu ekki vinsælustu áhugamálin – segir hún það skipta mestu að fólk fylgi sínu áhugasviði. „Áhugi minn er það sem knýr mig áfram og það er það sem gerir þetta starf svona mikilvægt og áhugavert.“


COMMENTS