NTC

,,Þegar stuðningur fjölskyldunnar er fyrir hendi eru mér allir vegir færir.”

hildur-betty
Hildur Betty Kristjánsdóttir deildarstjóri í Naustaskóla og doktorsnemi við Háskóla Íslands situr í 2. sæti á lista Viðreisnar í Norðaustur kjördæmi. Hildur er gift, þriggja barna móðir og Kaffið fékk aðeins að kynnast þessari kraftmiklu konu.

 

Hildur er að stíga sín fyrstu skref í pólitíkinni en hún brennur fyrir því að sjá einstaklinga vaxa og dafna innan samfélagsins. ,,Ég hef hingað til ekki haft mikinn áhuga á stjórnmálum sem slíkum heldur var það áhugi minn og ástríða fyrir málefnunum sem leiddi til þess að ég ákvað að bjóða mig fram í 2. sæti fyrir hönd Viðreisnar,” segir Hildur.
Hildur segir einnig að mikilvægt sé að allir hafa sömu tækifæri til að búa í réttlátu samfélagi og málefni ungs fólks brenna mikið á henni. ,,Auðvelda þarf ungu fólki fyrstu skrefin á fasteignamarkaði og að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum.“

Menntamálin sérstaklega hugleikin
Eins og fram hefur komið starfar Hildur innan menntakerfisins og eru mál þess því henni afar hugleikin. ,,Skoða þarf menntakerfið á heildstæðan hátt allt frá leikskóla upp í háskóla og eins það nám sem fer fram á vinnumarkaði. Auka þarf samstarf atvinnulífs og menntakerfis á öllum skólastigum og tryggja að námsframboð endurspegli atvinnutækifæri hverju sinni.”

Viðreisn, nýr og frjálslyndur stjórnmálaflokkur
Flokkur Hildar, Viðreisn hefur komið með miklum krafti inn í íslenskt stjórnmálalíf en flokkurinn nær inn þingflokki, sé miðað við kannanir undanfarinna vikna. En hvað er Viðreisn og fyrir hvað stendur þetta nýja afl? ,,Viðreisn er nýr, frjálslyndur stjórnmálaflokkur á Íslandi og stendur fyrir opnu samfélagi og virkri þátttöku Íslands í alþjóðlegri samvinnu. Flokkurinn vill byggja upp samfélag þar sem einstaklingar vilja og geta nýtt hæfileika sína til fulls. Mikilvægt er að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að traust ríki í stjórnmálum og í garð stofnana ríkisins.”

Stuðningur fjölskyldunnar mikilvægastur
Hildur kveðst hafa fengið afar góð viðbrögð frá fólkinu í kringum sig fyrir framboðinu og fólk sé forvitið að vita hvers vegna hún sé að standa í þessu. ,,Það er dýrmætt að fá skilyrðislausan stuðning sem og vangaveltur og kröfu á mig um að skýra fyrir hvað ég stend og hverju ég vil áorka með framboði mínu. Það sem skiptir mig mestu máli er stuðningur frá fjölskyldunni minni og þegar sá stuðningur er fyrir hendi þá eru mér allir vegir færir.”

 

Sambíó

UMMÆLI