Prenthaus

Þjálfar í æfingabúðum á vegum BJJ Globetrotters

Halldór Logi Valsson er með brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu og æfir og kennir hjá Mjölni í Reykjavík, hann hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í sínum flokki og á fjöldan alla af verðlaunum frá öðrum mótum, bæði hér heima og erlendis. Í sumar mun hann þjálfa í æfingabúðum á vegum BJJ Globetrotters hér á íslandi sem hefur lengi verið draumur hjá Halldóri.
Við hjá kaffinu fengum að forvitnast aðeins meira um hann Halldór, hans framfarir og framtíðarplön.

Halldór Logi Valsson

 

Hvað var það sem fékk þig til að byrja í glímu eða brasilísku jiu-jitsu?

Þegar ég var að æfa fótbolta með KA í gamladaga fóru æfingar í MMA og brasilísku jiu-jitsu fram í sama húsnæði og þar fórum á styrktaræfingar. Mér fannst eitthvað svo töff við þetta og fór reglulega eftir styrktaræfingarnar í boltanum og fylgdist með þeim slást. Einn daginn náði ég að safna nægum kjark til að prufa eina æfingu, það var ekki aftur snúið eftir það.

Hvað hefur þú stundað brasilísku jiu-jitsu lengi og hvernig hefur árangurinn verið?

Ég byrjaði að æfa árið 2010 samhliða fótboltanum. Árið 2011 ákvað ég svo að þetta yrði það sem ég ætlaði að gera við líf mitt og setti allt annað til hliðar og einbetti mér eingöngu að þessu. Síðan þá hef ég ferðast víðsvegar um heiminn í æfinga og keppnisferðir. Ég hef komist á pall á nánast öllum þeim mótum sem ég hef sótt erlendis og unnið fjölda þeirra, unnið 2 íslandsmeistaratitla og 2 Mjölnir Open titla sem eru sterkustu mótin hér á landi.

Ferðu mikið erlendis að keppa?

Ég reyni að fara eins mikið og peningarnir leyfa. Ef það er til peningur, þá fer það beint í keppnisferðir. Ég var það heppinn að erlent fyrirtæki sem sérhæfir sig í keppnisfatnaði fyrir glímu, hafði samband við mig og vildi styrkja mig til að fara meira út að keppa, það hefur aukið aðeins í ferðirnar. En ég væri að sjálfsögðu til í að geta komist mun meira.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir keppni?

Æfingarnar hjá mér eru í frekar mikilli rútínu og en ég geri ekkert sérstakt fyrir keppni. Ég byrja alla daga kl 12 á hádegisæfingu, fer svo í tæknipunkta til sirka 3, þá er matarhlé og svo þjálfun til 6. Eftir þjálfun æfi ég aftur til sirka 9 á kvöldin.

Nú ertu að fara að þjálfa í æfingabúðum, segðu okkur aðeins frá þessu.

Árið 2012 fór ég til Danmerkur í mínar fyrstu æfingarbúðir á vegum BJJ Globetrotters, en það voru þeirra fyrstu æfingarbúðir. Síðan þá hafa samtökin sprungið út og eru nú með stærstu BJJ samtökum í heiminum og halda um 10 æfingarbúðir á ári. Síðan 2012 hef ég farið í 9 slíkar æfingarbúðir. Í júlí á þessu ári ætla þeir í fyrsta sinn að koma til Íslands og höfðu samband við mig og buðu mér stöðu sem þjálfari í æfingarbúðunum, en það var virkilega skemmtilegt þar sem það er búið að vera draumur minn síðan ég fór fyrst fyrir 5 árum.

Hvað stefnir þú á í framtíðinni?

Ég stefni á enn stærri hluti í framtíðinni og ætla að taka þetta alla leið. Ég flutti suður í ágúst til þess að geta einblínt á ekkert nema æfingar. Ég vinn nú fullt starf sem þjálfari hjá Mjölni og get þannig einbeitt mér betur að íþróttinni. Ég stefni á að fara á nokkur stórmót í Brasílisku jiu-jitsu og verða vonandi Evrópu eða heimsmeistari að minsta kosti einu sinni. Ég stefni líka á að hefja feril í MMA (blönduðum bardagaíþróttum) sem fyrst og taka það alla leið líka.

UMMÆLI