Þjónustudögum í dagþjónustu fjölgað úr 250 í 365 hjá Öldrunarheimilum Akureyrar

Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa byrjað nýja starfsemi í dagþjálfun sem nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu, aukinn sveigjanleika og breytilegan þjónustutíma. Verkefnið er unnið á grunni leyfis heilbrigðisráðuneytisins frá október 2018.

Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára, með heimild til framlengingar til tveggja ára í viðbót, að undangengnu mati á framvindu verkefnisins og árangri.

Daglegur þjónustutími í dagdvöl er rýmkaður til kl. 20 eða 21 á kvöldin og þjónustudögum fjölgað úr 250 í 365. 10 af 17 tímabundnum hjúkrunarrýmum ÖA verða nýtt sem dagdvalarrými og til tímabundinnar dvalar með sveigjanlegan opnunartíma alla daga ársins.

„Markmiðið með þessu verkefni er að efla stuðning við eldra fólk sem býr heima og þarf stuðning til að búa áfram heima. Það gengur líka út á að efla stuðning við aðstandendur aldraðra og létta á álagi, með sveigjanlegri og einstaklingsmiðaðri aðstoð og ráðgjöf,“ segir Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.

Hann segir starfsfólk ÖA binda miklar vonir við að verkefnið leiði til markvissari þjónustu jafnframt því sem þeir fjármunir, sem til ráðstöfunar eru, nýtist enn betur.

„Við þurfum tíma til að þróa þetta nýja þjónustuform og höfum skipað starfsteymi til þess, sem mun vinna náið með notendum og aðstandendum þeirra,“ segir Halldór ennfremur.

Opið hús í Hlíð í dag frá 13 til 18

Önnur nýjung í starfi Öldrunarheimila Akureyrar er að þar hefur tekið til starfa hjúkrunarfræðingur með sérhæfingu sem heilabilunarráðgjafi. Það er fyrsta skrefið í að byggja upp á Akureyri ráðgjafarþjónustu um heilabilun en henni verður ætlað að þjóna íbúum og starfsfólki á Norðurlandi. Alzheimersamtökin og ÖA hafa unnið þétt saman síðustu ár og er þetta verkefni eitt af því sem kveðið er á um í sameiginlegri viljayfirlýsingu þeirra sem undirrituð var í október í fyrra.

Opið hús verður í Hlíð í dag, föstudag, frá kl. 13 til 18 þar sem þessar nýjungar í þjónustunni verða kynntar. Samstarfsaðilar, bæjarbúar og nærsveitungar eru hvattir til að líta inn og kynna sér þjónustuna og þiggja léttar veitingar í leiðinni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó