Þögult stríð í Jemen — mikilvægi heimsforeldra

Þögult stríð í Jemen — mikilvægi heimsforeldra

Borgarastyrjöld hófst í Jemen fyrir tæpum tveimur árum síðan, en áður hafði spenna byggst upp í landinu í yfir áratug. Nú hafa að minnsta kosti 10 þúsund manns látist í átökunum og 2,4 milljónir manna flúið heimili sín, skv. nýjustu tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Ljóst er að þessar tölur munu hækka til muna verði ekkert að gert, og hafa líklegast nú þegar hækkað töluvert. Ekki aðeins átakanna sjálfra vegna, heldur einnig vegna vannæringarástands, grafalvarlegrar afleiðingar stríðsins.

Áður en stríðið hófst var Jemen fátækasta ríki Mið-Austurlanda. Nú, þegar styrjöldin hefur staðið í næstum tvö ár, er vannæring meiri en nokkru sinni og hungursneyð vofir yfir landinu. Helmingur þjóðarinnar býr ekki við fæðuöryggi, eina af grundvallarþörfum mannsins, og næstum 3,3 milljónir manna eru alvarlega vannærðar, þar af 2,1 milljón barna.

Í vannæringu felst ekki aðeins skortur á fæðu heldur einnig skortur á drykkjarhæfu vatni, en óhreint drykkjarvatn getur haft í för með sér sjúkdóma eða valdið sýkingum sem eru sérstaklega hættulegar ungbörnum. Niðurgangspestir eru raunar ein algengasta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum, og óhreint vatn veldur oftar en ekki slíkum pestum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, leggur ríka áherslu á þau réttindi barna að njóta góðrar næringar allt frá fæðingu og starfar um þessar mundir með Al Sabayeen sjúkrahúsinu í Sana’a, höfuðborg Jemen, við að hlúa að vannærðum börnum.

Því miður er það svo að þegar neyðarástand brýst út, hvort sem það er af náttúrunnar eða manna völdum, eru það börn sem þjást mest. Mánaðarlegar gjafir heimsforeldra gera UNICEF kleift að bregðast samstundis við þegar neyð skapast og sinna hjálparstarfi á svæðum sem njóta lítillar sem engrar fjölmiðlaathygli. Eins að vera áfram til staðar fyrir börn eftir að kastljós fjölmiðla er farið annað. Mikilvægi heimsforeldra hefur sýnt sig í Jemen, en talað hefur verið um styrjöldina sem þögult stríð, þar sem átökin hafa ekki farið hátt í heimspressunni og ekki verið veitt athygli sem skyldi.

Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað. Sem dæmi dugir 3000 króna gjöf heimsforeldris á mánuði til að hreinsa rúmlega 18.000 lítra af vatni með vatnshreinsitöflum, vatn sem bjargað gæti lífum barna í Jemen um þessar mundir. Fyrir 2000 króna gjöf mætti t.d. útvega rúmlega 170 skammta af saltupplausn, en saltupplausn er lífsnauðsynleg fyrir barn sem þjáist af niðurgangi. Fyrir sömu upphæð mætti útvega rúmlega 30 börnum stílabók og blýant svo þau geti stundað nám þrátt fyrir hörmungarnar. Það er alveg magnað til þess að hugsa.

Hægt er að gerast heimsforeldri hér eða hringja í síma 552-6300 og skrá sig.

 

UMMÆLI

Sambíó