Þór tapaði gegn Hetti

Þór Akureyri tapaði gegn Hetti á Egilstöðum í gær í framlengdum leik í Domino’s deild karla í körfubolta. Þetta var fyrsti sigur Hattarmanna í vetur.

Þórsarar voru sterkari aðilinn í byrjun leiks og leiddu með 9 stigum að loknum fyrsta leikhluta, 11:20. Hattarmenn  komu hins vegar sterkir inn í annan leikhluta og voru fyrir vikið með 4 stiga forystu í hálfleik. Mestur varð munurinn 11 stig í 3.leikhluta.

Í fjórða leikhluta söxuðu Þórsarar forskot Hattarmanna smátt og smátt og staðan var jöfn, 73:73, að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni voru Hattarmenn mun sterkari og skoruðu 13 stig gegn aðeins 2 frá Þórsurum og tryggðu sér því sigur.

Nino D’Ang­elo John­son var atkvæðamestur í liði Þórs með 24 stig og 17 fráköst. Hilmar Smári Henningsson kom næstur með 15 stig og 8 fráköst.

Höttur er enn á botni Domino’s deildar eftir sigurinn með 2 stig en Þór Akureyri er í næst-neðsta sæti með 6 stig. Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn KR sem fer fram 1. febrúar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó