Þrír leikmenn til Magna – Myndband

Sigurður Marinó og Gunnar Örvar í leik með Þór

Magni frá Grenivík hefur fest kaup á þremur nýjum leikmönnum fyrir átökin í Inkasso-deildinni næsta sumar.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Davíð Rúnar Bjarnason, Gunnar Örvar Stefánsson og Sigurður Marinó Kristjánsson og voru þeir kynntir til leiks hjá Magna með frábæru myndbandi. Ljóst er að þeir munu verða Grenivíkurliðinu gríðarlegur liðsstyrkur.

Davíð Rúnar var fyrirliði KA sem sigraði Inkasso-deildina sumarið 2016

Davíð Rúnar er miðvörður sem kemur frá KA en þar hefur hann leikið allan sinn feril. Davíð, sem er 26 ára gamall, skoraði 11 mörk í 152 leikjum fyrir KA. Hann skoraði þá 1 mark í 9 leikjum fyrir liðið í Pepsi-deildinni síðasta sumar.

Gunnar Örvar og Sigurður Marinó koma til liðsins frá Þór.

Gunnar er framherji sem hefur í heildina spilað 104 leiki fyrir Þór og KA og skorað í þeim 32 mörk. Sumarið 2016 skoraði Gunnar 14 mörk í 22 leikjum og endaði sem markakóngur Inkasso-deildarinnar. Síðasta sumar skoraði hann 6 mörk í 22 leikjum fyrir Þór.

Sigurður Marinó er sóknarsinnaður miðjumaður sem getur spilað fremstu stöður á vellinum. Þessi 25 ára gamli leikmaður hefur allan sinn feril leikið með Þór en hann hefur skorað ellefu mörk í 201 leik í deild og bikar. Sigurður skoraði einnig eftirminnilega þrennu í Evrópuleik gegn Bohemian árið 2012.

Horfðu á myndbandið hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI