Prenthaus

Tímaritið Súlur 2018 er komið út

Nú snemma í aprílmánuði kom út hefti ársins af Súlum, sem er norðlenskt tímarit, gefið út á Akureyri. Ritið á sér sögu frá árinu 1971, þetta er 57. hefti þess, og er nú sem oftar 160 bls. að lengd. Þar er að finna ýmislegt efni, fyrst og fremst þjóðlegan fróðleik sem einkum tengist Eyjafjarðarsvæðinu. Ritið er prentað í Ásprenti á Akureyri.

Fremst í þessu hefti er viðtal sem Valgarður Stefánsson á Akureyri tók að stofni til 2002. Rætt er við Kristin Arnþórsson, ullartæknifræðing, sem lengi starfaði í verksmiðjunni Gefjuni, en var síðar ullarmatsmaður og fór þá víða um land. Á eftir viðtalinu er skemmtileg samantekt eftir Björn Ingólfsson á Grenivík sem segir frá samskiptum Arnþórs Þorsteinssonar verksmiðjustjóra, föður Kristins, við listamanninn Jóhannes Kjarval, en þeir voru góðkunningjar. Við sögu kemur einnig Sigríður Arnþórsdóttir, systir Kristins, sem lengi hefur búið á Grenivík.

Forsíðumynd Súlna 2018.

Þá er í heftinu ritgerð eftir Jóhann Lárus Jónasson, lækni, um Baldvin Hinriksson klénsmið, sem bjó manna fyrstur í Fjörunni á Akureyri, en átti annars skrykkjótta ævi. Á forsíðu heftisins er mynd af málverki í eigu Jóhanns Lárusar eftir Elísabetu Geirmundsdóttur, máluðu líklega upp úr 1930, af hluta gamla Innbæjarins á Akureyri, og blasa m.a. við kirkjan sem þá var, Skammagilið og fjallið Súlur.

Í heftinu er ýmislegt annað efni. Ritgerð er hér eftir Tryggva Gíslason fyrrum skólameistara um Stefán Þórarinsson, fyrsta amtmanninn á Möðruvöllum. Valdimar Gunnarsson skrifar um jarðeignir í Fram-Eyjafirði. Kristín Aðalsteinsdóttir sendir frá sér viðtal við Jóhann Sigtryggsson í gamla Innbænum. Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur fjallar um framfirska bókmenntasögu. Styttri þættir eru eftir Sveinbjörn Matthíasson, Svein Jónsson frá Kálfsskinni og Bernharð Haraldsson. Í lokin er birt stutt ársskýrsla Sögufélags Eyfirðinga sem gefur Súlur út, formaður félagsins er Jón Hjaltason. Allmargar myndir eru í heftinu.

Sími Sögufélagsins / símsvari er 462 4024. Áskriftarverð þessa heftis Súlna er kr. 4400. Ritið fæst einnig í lausasölu í Pennanum á Akureyri. Við áskriftarbeiðnum tekur  Guðmundur P. Steindórsson, netfang gudps@simnet.is. Ritstjóri Súlna er Björn Teitsson sagnfræðingur, netfang hans er banna@simnet.is, heimasími 456 4119. Í ritnefnd eru að auki Ása Marinósdóttir, Jón Hjaltason og Kristín Aðalsteinsdóttir. Þau taka líka við efni til birtingar, og eru sérlega vel þegnir minningaþættir eða stuttar frásagnir.

Sambíó

UMMÆLI