NTC netdagar

Tveir nemendur náðu að lesa trúnaðargögn

Borgarhólsskóli á Húsavík. Mynd: borgarholsskoli.is.

Eins og Kaffið greindi frá um helgina varð alvarlegur öryggisbrestur í grunnskólanum á Húsavík þegar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar urðu aðgengilegar öllum við uppfærslu á tölvukerfi skólans. Mistökin urðu þegar tæknimenn Advania voru að færa gögn frá tölvukerfi Borgarhólsskóla yfir á svo kallað ský en þá urðu þau aðgengileg öllum í ákveðinn tíma, þó aðeins þeim sem voru innan tölvuumhverfis skólans.

Nú liggur fyrir skýrsla um mistökin sem Advania og öryggisfyrirtækið Syndis skiluðu Norðurþingi í dag. Þessu greinir RÚV frá. 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri, segir í samtali við RÚV að málið hafi einskorðast við tvö tilvik þar sem nemendur náðu að lesa trúnaðargögn. Þá var mynd tekin af einu skjali og dreift meðal nokkurra nemenda. Í öðru tilvikinu var um viðkvæmt skjal að ræða en ekkert bendir þó til þess að skjölum eða öðrum upplýsingum hafi verið dreift, þó sé auðvitað aldrei hægt að útiloka að upplýsingar hafi farið víðar í málum sem þessum. Kristján segir niðurstöðuna þó mun betri en þau hafi óttast í fyrstu.

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, segir þau harma þetta atvik og taka því mjög alvarlega. Tæknimenn Advania hafa margoft framkvæmt svipaðar yfirfærslur en við bilanagreiningu gerði starfsmaður mistök og þannig urðu gögn frá einum notanda aðgengileg fleiri notendum í sama kerfi í u.þ.b. sólahring. Eftir atvikið hefur Advania ráðist í að endurskoða alla verkferla, þjálfun starfsfólks og gæðaeftirlit til að koma í veg fyrir að svona atvik komi upp aftur.

Sjá einnig:

Viðkvæm trúnaðargögn grunnskólans á Húsavík aðgengileg öllum

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó