Um 60 manns tóku þátt í Aðgengisstrolli sem haldið var í gær í tilefni af Evrópsku samgönguvikunni. Viðburðurinn fór fram í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár með það að markmiði að vekja athygli á aðgengismálum. Greint er frá á Akureyri.is.
„Meðal þátttakenda voru bæjarfulltrúar á Akureyri sem tóku þátt í göngunni í hjólastólum sem Sjálfsbjörg útvegaði. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Sjálfsbjargar á Íslandi, mætti á viðburðinn og sagði það jákvætt að bæjaryfirvöld sýni málefnum fólks með hreyfihömlun virkan áhuga,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Boðið var upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda á planinu við Íþróttahöllina þar sem strollinu lauk. Einnig gafst gestum kostur á að skoða strætisvagn með áherslu á aðgengi og prófa að fara yfir minni hindranir í hjólastól.
Viðburðurinn var hluti af Evrópsku samgönguvikunni sem stendur yfir dagana 16.–22. september. Í tilefni samgönguvikunnar stendur Akureyrarbær einnig fyrir fjölskylduleik þar sem hægt er að vinna lýðheilsukort fyrir alla fjölskylduna. Sjá nánar hér.


COMMENTS