„Unga fólkið hefur heilmikið fram að færa“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, sem senn lætur af starfi bæjarstjóra á Akureyri

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hættir eftir tvö kjörtímabil í starfi.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram í embættið á Akureyri og býður ekki fram krafta sína fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.
Eiríkur starfaði sem deildarstjóri hjá Akureyrarbæ á árunum 1996-2002 en þá flutti hann austur til Egilsstaða þar sem hann tók við starfi bæjarstjóra. Eiríkur tók við starfi bæjarstjóra á Akureyri árið 2010 og hefur því starfað sem bæjarstjóri í að verða 16 ár, tvö kjörtímabil fyrir austan og nú síðast tvö á Akureyri. Eiríkur segist ekki hafa verið lengi að ákveða sig að sækja um starfið þegar hann sá stöðuna auglýsta af Akureyrarbæ en L-listinn, sem fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum 2010, ákvað að ráða inn í stöðuna einhvern óháðan listanum.
,,Þegar tímabilinu sem bæjarstjóri fyrir austan lauk þá leit ég í kringum mig, sá þessa stöðu auglýsta og ég sló bara til. Ég sótti um eins og mjög margir aðrir og var svo heppinn að vera valinn úr góðum hópi umsækjenda. Þetta var frábært tækifæri til að koma aftur til Akureyrar og vinna í þessu frábæra samfélagi,“ segir Eiríkur um ráðninguna fyrir tæpum átta árum.

Stærsta áskorunin að standa undir væntingum
Eiríkur segir það eðlilegt að Akureyringar geri miklar kröfur til bæjarins og þeirrar þjónustu sem hann stendur fyrir.
,,Auðvitað gerir fólk kröfur, Akureyringar eru duglegir að gera kröfur um góða þjónustu og ég vil fremur öllu standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar.“
Hann segir starfið frábært tækifæri til að aðstoða við að byggja upp samfélagið þó svo að það sé ákveðin áskorun að halda utan um þetta allt saman, enda Akureyrarbær meðal stærstu fyrirtækja bæjarins.

,,Þetta er að sjálfsögðu tækifæri til að vera þátttakandi í að byggja upp samfélagið, koma þannig að uppbyggingu, skipulagi og undirbúningi allrar þjónustunnar sem Akureyrarbær veitir. Þetta er svo gríðarlega öflugt og stórt fyrirtæki að það er auðvitað heilmikið mál að halda utan um það allt saman. Þar er gríðarlegur fjöldi starfsmanna og mörg verkefni sem við erum að sinna. Öll samskipti í starfinu, bæði við ríkisvaldið, starfsmenn og auðvitað íbúa bæjarins, skipta mestu máli. Að veita íbúum góða þjónustu og standa undir þeim kröfum og væntingum sem þeir gera til þjónustunnar sem við stöndum fyrir skiptir mestu máli,“  segir Eiríkur um bæjarstjórastarfið.

Gefur langmest að geta hjálpað fólki
Eftir átta ár í embætti bæjarstjóra Akureyrar hefur Eiríkur upplifað ýmislegt í starfi. Þegar hann lítur til baka segir hann að náin tengsl við íbúa standi tvímælalaust upp úr. Hann hefur á þessu tímabili hitt fjöldann allan af fólki og segir það ómetanlegt þegar honum tekst að hjálpa til, hvort sem það eru einstaklingar, fjölskyldur, félagasamtök eða fyrirtæki.
,,Í mörgum tilvikum hefur maður fengið tækifæri til að hjálpa fólki sem hefur kannski verið í einhverjum erfiðleikum og svoleiðis verkefni standa auðvitað alltaf upp úr. Ef maður nær að leysa úr einhverju fyrir fólk sem er í einhverjum vandræðum og maður finnur að maður gerir gagn. Þau verkefni eru auðvitað mjög mörg og gefa manni alltaf mest, þegar maður sér að þau skila árangri,“ segir Eiríkur sem ítrekar þó að hann standi nú ekki einn heldur hafi fjöldann allan af frábæru samstarfsfólki með sér og saman leysi þau málin.
Frí fyrst og svo nýjar áskoranir
Eiríkur segist ekki vera kominn áleiðis með að svara spurningunni um hvað taki við að loknu starfi hans sem bæjarstjóri á Akureyri. Hann vill frekar klára tímabilið og sinna sínum skyldum áður en hann fer í alvöru að huga að þeirri spurningu.
,,Ráðningarsamningurinn minn rennur út í júní og ég vil bara sinna mínum skyldum þangað til. Svo er það bara ágætis klisja að ég vil í kjölfarið taka mér gott frí og hlaða batteríin,“ segir Eiríkur og hlær. ,,Það er eiginlega það sem ég bíð spenntastur eftir, að komast í smá frí og hreinsa hugann aðeins. Maður hefur undanfarin ár einhvern veginn alltaf verið með hugann fastan í vinnunni, jafnvel í fríum. Núna næ ég kannski að hlaða batteríin almennilega,“ segir hann.

Eiríkur ásamt Ólöfu, leikskólakennara og skáta, við setningu Akureyrarvöku og Afmælishátíðar Akureyrarbæjar 2017. Krakkar úr tveimur leikskólum komu saman og sungu meðan Akureyrarvökufánanum var flaggað.

Hann segir bæjarstjórastarfið vera mjög erilsamt á þann hátt að maður sé í rauninni alltaf við vinnu. Þó hafi hann  verið mjög heppinn að því leyti að vera með gott samstarfsfólk í kringum sig sem létti álagið svo um munar. Þrátt fyrir kröfur og erilsemi starfsins segir hann þetta þó umfram allt hafa verið gríðarlega skemmtilegt og hann lært ótrúlega mikið á þessum 16 árum sem hann hefur starfað sem bæjarstjóri, bæði á Egilsstöðum og á Akureyri.
,,Svo tekur bara eitthvað nýtt við. Það koma alltaf ný tækifæri og nýjar áskoranir og maður fagnar því bara. Hvar eða hverjar sem þær svo sem verða,“ segir Eiríkur.

Fólk tekur frekar þátt í bæjarstjórnarkosningum ef á það er hlustað
Í sveitarstjórnarkosningunum í maí árið 2014 var kjörsókn í landinu minni en nokkru sinni fyrr. Á landinu öllu var heildarkjörsókn 66,5 prósent. Þá var kjörsókn í Norðausturkjördæmi 67,12 prósent.
Eiríkur er bjartsýnn að kjörsóknin verði betri í ár og segir það vonandi afleiðingu af auknu íbúalýðræði.
,,Undanfarin kjörtímabil höfum við reynt að efla íbúalýðræði með ýmsum leiðum. Við höfum gert kannanir meðal íbúa hvernig við getum náð betur til þeirra, við höfum verið með hverfisráð, viðtalstíma hjá bæjarfulltrúum o.fl. Með því að sýna fólki áhuga og gefa fólki tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri fær fólk frekar áhuga á bæjarmálunum. Á Akureyri hefur fólk mikinn áhuga á bæjarmálum og það verður svo til þess að það kemur á kjörstað og kýs. Svo þarf auðvitað að vera áhugavert fólk í framboði sem nær til kjósenda,“ segir Eiríkur en hann telur það mikilvægt að reyna að efla áhuga ungs fólks á bæjarmálum því kjörsókn þess er áberandi lítil.

,,Unga fólkið skilar sér illa á kjörstað. Við þurfum að sýna því áhuga, hlusta betur á það og gefa því tækifæri. Maður lítur bara í eigin barm, ef það er hlustað á mann þá hefur maður meiri áhuga á málunum. Unga fólkið hefur heilmikið fram að færa og um leið og það finnur að það hefur einhver áhrif þá verður það virkara. Þannig held ég að við náum fleirum til að koma, vera með og auðvitað kjósa.“

Fullur þakklætis
Eiríkur telur helstu áskorun næstu bæjarstjórnar vera atvinnumál, húsnæðismál, málefni aldraðra og að styrkja innviðina í heild sinni. Fjármálin eru alltaf stærsta áskorun bæjarins en hann telur reksturinn hafa gengið vel síðastliðin ár og vonar að hann gangi áfram vel hjá komandi bæjarstjórn og jafnvel betur.
,,Okkur hefur tekist að reka sveitarfélagið mjög vel undanfarin ár, og líka löngu áður en ég kom til starfa, og ég er mjög ánægður með þann árangur. Ég er bara gríðarlega þakklátur fyrir þetta tækifæri sem ég hef fengið, að sitja þessi kjörtímabil. Ég hef átt í mjög góðu samstarfi við alla, íbúa bæjarins og auðvitað þá sem eiga í samskiptum við sveitarfélagið. Maður er bara fullur þakklætis,“ segir Eiríkur að lokum.

Viðtalið birtist upphaflega í vikublaði Norðurlands 25. janúar.

UMMÆLI

Sambíó