Varðveisla Punktsins handverksmiðstöðvarAðsendur pistill. Barbara Hjartardóttir skrifar:

Varðveisla Punktsins handverksmiðstöðvar

Í byrjun langar mig að minnast á þá staðreynd hve Punkturinn er mikilvægur staður fyrir flesta þá sem sækja þangað. Félagslegi þátturinn spilar stórt hlutverk en einnig getum við unnið handverk okkar á staðnum, þá skiptir litlu hversu stórt eða lítið það er. Sumir notendur hafa ekki marga í kringum sig eða eiga erfitt með að sækjast eftir félagsskap, en finnur þarna fyrir öryggi og koma ekki bara til að vinna í handverki heldur líka til að ræða við aðra sem koma og starfsfólkið.

Starfsfólkið á Punktinum er einstakt á því sviði að bjóða alla velkomna og sýna væntumþykju og kærleik. Oft á tíðum hafa þau áhyggjur ef fasta gestir koma ekki í einhvern tíma. Ég hef heyrt margar sögur af fólki sem hefur náð góðum bata í stríði við andleg veikindi og er eitt gott dæmi um strák sem var búin að búa í fjögur ár inni á Kleppi, þegar hann heyrði af Punktinum. Hann útskrifaði sig og flutti norður. Þetta var árið 2012 og hefur hann síðan eingöngu farið í tvær stuttar innlagnir á geðdeild. Hann reiknaði út að þessi flutningur og komur hans á Punktinn hafi sparað þjóðfélaginu hundrað þúsund krónur á sólarhring. Annað dæmi er um stelpu sem er að kljást við félagskvíða . Eitt sinn þegar hún var í verslunarleiðangri fékk hún kvíðakast. Í staðinn fyrir að fara heim og undir sæng fór hún á Punktinn því þar fann hún fyrir öryggi.

Það er þó ekki bara fólk með geðræn veikindi sem koma á Punktinn. Einstaklingar sem eru án atvinnu kemur þangað til að halda virkni þar til önnur vinna finnst. Eldri borgarar koma einnig til að halda virkni og fólk sem er í veikindaleyfi vegna kulnunar kemur líka. Virk er í samstarfi við Starfsendurhæfingu Norðurlands og koma skjólstæðingar þeirra einu sinni í viku og fá tækifæri að prófa það sem er í boði sem er mikilvægt því oft kemur fram hæfni sem einstaklingur vissi ekki að væri til staðar. Punkturinn sér líka um námskeið sem er í boði fyrir grunnskólabörn. Eru námskeiðin það eftirsótt að biðlisti myndast fljótlega eftir að opnað er fyrir skráningu.

Ef ég minnist aðeins á húsnæðið sem Punkturinn er í núna, þá er það eins og sniðið fyrir starfsemina. Hvert herbergi hefur sinn tilgang og í hjarta staðarins eru þessar helstu handverksstöðvar. Smíðastofan aðeins í burtu svo sá hávaði, sem er oft á tíðum, er ekki að trufla þá sem eru í hinum stofunum. Allt er eins flott og hægt er að hafa það og yrði það synd og skömm að breyta þessu eins og stendur til. Rósenborg, þar sem Punkturinn er staðsettur núna, hefur mjög gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða og skilst mér að svo sé ekki á staðnum sem fyrirhugað er að flytja starfsemina. Þegar var farið að skoða komur á Punktinn þá eru um 300-400 komur á mánuði. Þeir sem koma borga fyrir allt efni og einhverjir borga véla- og aðstöðugjald. Námskeið sem eru í boði, hvort sem þau eru á daginn eða kvöldin, eru mikið sótt og ef á að hætta með þau þá myndast stórt skarð því þessi námskeið, sérstaklega kvöldnámskeiðin eru mikið sótt af fólki sem langar að læra eitthvað nýtt en kemst ekki á daginn. Eins ef að á að hætta með að hafa opið einu sinni í viku á kvöldin þá mun líka koma skarð í tekjur Punktsins því mikið af fólki sem er að vinna á daginn nýtir sér þessa opnun. Heilbrigðisstarfsmenn eru margir ekki hrifnir að láta skerða starfsemina, hvað þá hætta henni, því þeir sjá hversu mikið Punkturinn getur gert fyrir bæði andlega og líkamlega veika einstaklinga.

Fjárhagsáætlun segir að Punkturinn fái 38 milljónir í sína stafsemi og fara 9 milljónir aftur til bæjarins í formi húsaleigu, þá stendur eftir launakostnaður og ýmis annar kostnaður. Ef tilgangurinn er að spara fjármuni, þá er spurning hver sparnaðurinn verði eftir flutninginn og þær breytingar sem þarf að gera í Víðilundi,eins og t.d að setja upp lyftu til að húsnæðið verði fært fyrir hreyfihamlaða. Ég held að það sé hægt að fullyrða að fólk, alls staðar af landinu, sem skoðað hafa starfsemina á Punktinum sé sammála um hversu gott starf sé þar í gangi. Það er óhætt að segja að Punkturinn sé rós í hnappagat Akureyrar.

Pistillinn er opið bréf sem hefur verið sent á alla í bæjarstjórn en mikil óánægja er útaf þessum flutningi, bæði hjá notendum Punktsins, íbúum í Víðilundi og þeim sem sækja þar þjónustu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó