Vestnorden ferðakaupstefnan haldin á AkureyriRáðstefnan verður haldin í íþróttahöllinni á Akureyri á morgun og hinn.

Vestnorden ferðakaupstefnan haldin á Akureyri

Ferðakaupstefnan Vestnorden Travel Mart verður haldin í 33. skipti 2.-4. október á Akureyri. Rúmlega 600 gestir sækja kaupstefnuna; ferðaþjónustuaðilar frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, auk kaupenda ferðaþjónustu frá 30 löndum úr öllum heimshornum.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, setur ferðakaupstefnuna Vestnorden Travel Mart þriðjudaginn 2. október í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri kl. 8.30 en kaupstefnan sjálf fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri. Eliza Reid, forsetafrú, er sérstakur gestur kaupstefnunnar og leggur áherslu á sjálfbærni og ábyrga ferðahegðun í ferðaþjónustu í inngangsorðum sínum. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ráðherra ferðamála flytur ávarp.

Á kaupstefnunni verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna. Reiknað er með yfir 600 þátttakendum í ár, frá 30 löndum.

Vestnorden Travel Mart er mikilvægasta ferðakaupstefnan sem haldin er á Norður-Atlantshafssvæðinu. Meginhlutverk hennar er að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Hún er einnig frábært tækifæri til að kynna Ísland sem áfangastað. Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við NATA. Styrktaraðilar kaupstefnunnar eru Akureyrabær, Air Iceland Connect og ISAVIA.

UMMÆLI

Sambíó