„Við ætluðum bara að vera hér í þrjú ár en svo er það vöxturinn og krafturinn hér fyrir norðan“

„Við ætluðum bara að vera hér í þrjú ár en svo er það vöxturinn og krafturinn hér fyrir norðan“

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar er Akureyringur vikunnar á Facebook-síðu Akureyrarbæjar. Þorvaldur fagnar tíu ára starfsafmæli hjá Menningarfélagi Akureyrar á þessu ári.

Þórunn Geirsdóttir, skipulags- og sýningarstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar og eiginkona Þorvalds, hefur einnig starfað hjá Menningarfélaginu í tíu ár. Þorvaldur segir í samtali við Akureyrarbæ að áætlunin hafi verið að búa á Akureyri í þrjú ár.

„Við ætluðum bara að vera hér í þrjú ár, en svo er það vöxturinn og krafturinn hér fyrir norðan, að í hvert skipti sem maður hugsar sinn gang þá kemur alltaf: nei, ég get ekki hætt núna. Það hefur verið mikill akkur fyrir leikfélagið að fá svona leikhúsfagmanneskju eins og Þórunni norður. Mér finnst stórkostlegt að vinna með henni og við höfðum mikla reynslu af því áður, t.d. í Þjóðleikhúsinu í Spamalot og Ástin er diskó lífið er pönk. Við kynntumst Í gegnum leikhúsbransann.“

„Við Þórunn erum mikið ævintýrafólk og tókum strax ákvörðun um að kaupa eign hér. Ég var líka búinn að spila mikið hér áður enda hefur Akureyri alltaf verið Todmobile-bæli. Ég vissi því hversu sterk bæði tónlistin og menningin er. Orkan og viljinn hér er ótrúlegur. Sinfóníuhljómsveitin hefur staðið að baki mörgum af stærstu sinfónísku viðburðum landsins, til dæmis Lords of the Rings, Andrea Bocelli og The Joker, þegar við heiðruðum Hildi Guðnadóttur, og fórum í Eldborg. Samstarfið SN við leikfélagið hefur líka verið öflugt og saman höfum við sett upp söngleiki á borð við Chicago og Kabarett – og þá með hljómsveit að þeirri stærð sem verkin voru skrifuð fyrir. Það er kosturinn við samstarf SN og LA. Þessi tími hefur verið magnaður og bæði dramatískur og spennandi.“

Hér að neðan má sjá umfjöllun Akureyrarbæjar um Þorvald Bjarna í heild.

COMMENTS