KIA

,,Við getum ekkert farið því við eigum börn”

b-kk

Mörg okkar fá þá stórkostlegu gjöf að verða foreldrar og vil ég meina að það sé einlægur vilji allra foreldra að veita börnum sínum eins gott líf og kostur er. Uppeldi er þar mikilvægasta innlegg sem við veitum í líf barna okkar en sitt sýnist hverjum um hvaða aðferðum sé best að beita í þeim efnum.

Ég ætla svosem ekkert telja það til í þessum pistli hvað sé gott og hvað sé slæmt þegar kemur að uppeldi barna. Mig langar öllu heldur að benda á eitt atriði sem ég fékk í mínu uppeldi sem ég tel að hafi haft góð áhrif á mitt líf.

Þegar ég var fjögurra ára gamall ákváðu foreldrar mínir að flytja frá Ísafirði þar sem ég er fæddur og til Osló í Noregi. Eins og gefur að skilja man ég ekki eftir þessum tíma í smáatriðun en ég man þó að það var ekki auðvelt til að byrja með. Nýtt umhverfi, nýjir vinir og nýtt tungumál voru hlutir sem ég þurfti að takast á við.

Hvað gerir barn sem er sett í þessi spor? Jú það fer og tekst á við aðstæðurnar og prófar sig áfram. Eftir stutta stund var ég búinn að eignast vini og farinn að tala norsku eins og innfæddur og eftir á að hyggja eru þau 4 ár sem ég bjó í Noregi alltaf sá tími í æsku sem ég held ég hafi þroskast mest.

Eftir dvölina í Noregi tóku við nokkur ár á Akureyri, svo Eyjafjarðarsveit og loks Reykjavík. Einhverjir telja eflaust að svona rótleysi hafa slæm áhrif á börn en það er að mínu mati þveröfugt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að  þetta sé einmitt besta gjöf sem foreldrar mínir gáfu mér sem barn.

Það að prófa sig áfram í nýjum aðstæðum og að læra nýtt tungumál þroskar og bætir alla. Það mikilvægasta sem við kennum börnunum okkar er það er hvernig umgangast eigi annað fólk og besta leiðin til að læra það er að fara út og vera í samskiptum sem flesta.

Þegar ég fór að eignast börn sjálfur hugsaði ég mikið um þetta og þegar mér og konunni minni bauðst að fara í skiptinám til Álaborgar hugsuðum við okkur ekki tvisvar um. Við höfum nú búið hérna í Danmörku í rúmt ár og ég hef fylgst með börnunum mínum takast á við það nákvæmlega það sama og ég gerði sem barn. Sonur minn sem er sex ára fór í fyrsta bekk og að sjá hvernig honum hefur tekist að aðlagast, kynnast nýjum vinum og þroskast hefur sannfært mig enn meira í þeirri trú um að þetta hafi verið rétt ákvörðun.

Auðvitað eru ekki allir í þeirri aðstöðu að geta flutt en það að nota ,,Við getum ekkert farið því við eigum börn” er að mínu mati þvæla því það er ein besta gjöf sem þú getur gefið barninu þínu.

bergur

-ósó

UMMÆLI