Við hér fyrir norðan eigum margan gimstein þann sem glóir í mannsorpinu

Við hér fyrir norðan eigum margan gimstein þann sem glóir í mannsorpinu

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar:

Jæja krakkar mínir. Þá er það, algerlega umfram eftirspurn, gagnrýni mín á glænýrri, rjúkandi heitri lummu með rúsínum og sykri. Þið vitið, þessi sem þið átuð við eldhúsborð með stálfótum og plötu með æðisgengnu marmaramynstri. Ísköld mjólk með. 

Byrjið bara á því að fara og sækja ykkur kaffibolla, sneið af randalínu og bismark. Ég er ekki kona fárra orða og nú þarf ég bara að segja svo margt. Spurning um að henda vídjóspólu í tækið og stilla á upptöku fyrir Gæding læt.

En miskiljið ekki. Uppsetning Leikfélags Hörgdæla á leikverkinu Í fylgd með fullorðnum eftir Pétur Guðjónsson er langt í frá lummó. Nema ef vera skyldi þegar það á við. Það var nefnilega alveg ægilega margt lummó á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Já. Ég sagði það. 

Verkið er byggt á textum Bjartmars Guðlaugssonar og þar bregður fyrir þessum ýmsu karakterum sem við öll höfum sungið um í æði misjöfnu ástandi, út undir húsvegg á gömlu félagsheimili eða í eftirpartýi sem hefði átt að ljúka fyrir allnokkru síðan. En ég ætla alls ekkert að fara að tala um Bjartmar og hans verk. Til þess hef ég ekki nægilega listgreind. En ég get sagt ykkur það að ég hef verið laumuskotin í honum alltof lengi. Ég þarf mögulega að leita mér hjálpar. 

Að því sögðu dettur mér fyrst í hug að nefna leikmyndina. Hafrún Bylgja leikmyndahönnuður, ofvirk ungfrú Snæfells og Hnappadals, kemur eins og ferskur andvari inn í leiklistarsenuna hér fyrir norðan. Það má sjá er maður gengur í salinn að þar fer manneskja sem ekki aðeins er lausnamiðuð og útsjónarsöm heldur jaðrar við pervertískan áhuga hennar á að nostra við hvert smáatriði sem í fyrstu virðist tilviljanakennt en er fagurlega sköpuð heild sem setur sterkan svip á sýninguna. Gervimarmari, gulir gleröskubakkar, hansahillur og gult tjaldborgartjald. Þó þú hafir bara verið krakki á þessum tíma þá færðu hringlandi nostalgíukast og langar bara að laumureykja og drekka flatt valash úr gleri. 

Hvað er það síðan sem áttundi og níundi áratugurinn ætti að biðjast fyrst og fremst afsökunar á? Tjernobyl?  Nei. Aldeilis ekki. Morðið á Olof Palme? Nei nei, ekkert endilega. Klæðaburðurinn? Já dömur mínar og herrar. Viðurkennum það bara hér og nú. Og sannarlega tókst samhentum hópi innan leikfélagsins að æla yfir okkur öllum hræðilegum ákvörðunum þessa tíma. Aldrei samt svo að það virtist yfirdrifið líkt og hefði verið svo auðvelt að gera. Frekar með slíku áreynslu- og látleysi að það einfaldlega gerir nákvæmlega það sem búningar eiga að gera. Styðja og styrkja en ekki taka yfir. Ég hinsvegar væri til í að láta ýmislegt fyrir bermudasjorts dressið hans Benna.     

En jermías og jólaskór krakkar. Við verðum hér í allan dag ef ég ætla að týna til hvert einasta smáatriði sýningarinnar. Sérstaklega vegna þess að smáatriðin voru mörg. Öll umgjörð bar þess merki að þetta leikfélag stendur styrkum fótum mannauðs síns sem sannarlega hefur gaman af því að nostra við verkefnin sín. 

Ég veit persónulega hvað það er að vinna með stórum hópi áhugaleikara og það er meira en að segja það að ná fram því besta í hverjum og einum. Ég tala ekki um þegar aldursbilið spannar 50 ár eins og í þessu tilviki. Pétri leikstjóra tekst svo sannarlega að kalla fram það besta í hverjum og einum. Leikstjóri sem hefur nef fyrir því í hverju styrkur hvers og eins felst er góður leikstjóri. Þú kemst ansi langt á því. Alla leið til Grímseyjar. 

En hættum að tala á svona alvarlegum nótum. Þetta er orðið svo þungt að túperingin er farin að falla. Ég ætla að reyna eftir fremsta megni að taka ekki fyrir hvern einn og einasta leikara og tjá mig um kosti þeirra og galla. Til þess yrði lesningin á við sæmilegasta ritverk í anda Laxness. Suma verð ég einfaldlega að nefna en öðrum verður að sleppa, leikhópurinn er svo stór. 

Sumarliði er fullur. Og hann er víst alki. Skrápurinn er jafn skorpinn og lifrin og hann er afkvæmi heimóttarskaps og hræðslu. En það er samt þessi mjúki kjarni. Djúpt inn undir þykku lagi af brostnum vonum, horfnum draumum og vonbrigðum. Bernharð Arnarsson er mörgum kunnur úr áhugamannaleikhússenunni. Það er til fólk út í bæ sem enn nýtur aðstoðar sálfræðinnar (þeirri sömu og tekur á vandræðalegri óendurgoldinni ást þinni á frægum tónlistarmanni) eftir að hafa borið hann augum, kviknaktan, á sama sviði fyrir bara ekkert svo mörgum árum síðan. Hann túlkar þennan Sumarliða með þess konar gleði og virðingu að maður ýmist hló að honum eða með, reiddist eða grét. Því Sumarliði sem Benni býr til er nefnilega manneskja sem við þekkjum öll. Manneskja sem við elskum alveg en er óþolandi gölluð. Ekki vegna þess að hún sé vond. Hún er bara afleiðing. 

Ert’ekki alltaf bissí Krissí? Hver þekkir ekki þessar mæddu húsmæður með þunga poka og þvottinn og skilur bara ekki djúpþenkjandi mennina sem þær voru svo lukkulegar að landa? Þessa sem færa þeim tilveruna á silfurfati á meðan þeir púla á sjónum svo þær geti haft það gott. Í blokkaríbúð í Breiðholtinu með gnægð þunnilda og þursabita. Er að undra þó þær ærist? Hún Krissí er í senn aumkunar- og aðdáunarverð. Fanney Valsdóttir leikur þessa bitru eiginkonu sem er fangi örlaga sinna og draugkenndur persónuleiki hennar ærir óstöðugan. Því maður vill að hún standi með sér! En við þekkjum þetta. Það er alveg sama hversu mikið maður myndi garga úr salnum, ,,stattu með þér” þá myndi hún ekki heyra. Því hún er fyrir löngu búin að gefa eftir sjálfið sitt. Þegar Fanney ýmist lætur axlirnar síga eða sperrir þær aftur þá veistu nákvæmlega hvað er að berjast um innan í persónunni hennar. Og ef þú ert meðalkona þá berst það innra með þér líka. Það krakkar mínir, það er góður leikur. Svo einfalt er það. 

Þá eru það Birnurnar. Leikverkið fjallar nefnilega um hana Birnu. Dóttur Sumarliða og Krissíar. Hún er í þessu verki að gera upp ævi sína sem afkvæmi þessara karaktera og veltir fyrir sér hvort hún sé, líkt og faðir sinn, afleiðing. Eða hvort hún sé bara lík sjálfri sér. 

Birna hin yngsta. Þetta barn sem þarf að horfa upp á breyskleika foreldra sinna og mótar það um alla eilífð. Lítil sál sem í upphafi ævigöngunnar á að vera sinnt en ekki sinna. Það nístir svolítið hressilega þegar maður áttar sig á að það hefur þótt óþarflega eðlilegt að leggja slíkt á lítil börn þessa lands. Og þetta pínulitla stýri sem stendur varla út úr hnefa svífur inn á sviðið og hefur leik. Fumlaus með öllu og full sjálfstrausts. Þar gildir þessi mikilvægasta regla sviðsframkomunnar. Að ef þú stendur með því sem þú ert að gera, þá trúir salurinn þér. Og það gerir hún svo sannarlega, hún Ylfa Sól Agnarsdóttir sem hrífur þig með frá fyrstu setningu og þér finnst reglulega í gegnum allt verkið að nú hafi hún toppað sig. En ég segi nú bara eins og kúl krakkarnir á góðri engilsaxnesku, wait for it! Elsku hjartans barn! Þú sem leikur á sviði með alhreint hjarta færð svarta, bitra sál eins og mig til að tárast. Ég bið ekki um meira. 

Birna hin elsta er þungamiðja verksins. Hún er á sviðinu allan tímann og það krefst úthalds. Það er morgunljóst að Stefanía Elísabet hefur dregið fram bæði bumbubanann og fótanuddtækið í undirbúningnum því hún er í fantaformi. Hún ýmist argar eða hvíslar, hlær eða grætur og þú gerir það með henni. Því Stefanía býr til persónu sem þú tengir við. Hún neglir tilfinningum sínum út í mettaðan salinn líkt og hafnaboltahetja og þar liggja þær ofan á þér eins og mara og neyða þig til að horfast í augu við þinn eigin breyskleika og mistök. 

Ungu Birnurnar tvær eru svo leiknar af Særúnu Elmu og Matthildi Ingimars. Við skulum bara hafa þetta stutt. Ef þú hefur einhvern tíma verið ung kona, átt unga konu, þekkt unga konu, þá veistu að tilveran er eins og vöðlað grásleppunet, stútfullt af hrati og hrútskýringum. Er auðvelt að ætla að færa það upp á svið án þess að endilega segja það? Nei. Gera þær það bara með ágætum? Já. Mig langar að eiga þær. Ég á laust herbergi. Börnin mín sofa hvort eð er alltaf upp. 

Þá verð ég að hlaupa á hundavaði áður en mjólkurgrauturinn verður sangur og sultan brunnin. 

Að öllum öðrum leikurum ólöstuðum verð ég bara að fá að grípa aðeins niður í nokkra eftirtektarverða karaktera. Þar ber fyrst að nefna Geira Sveppagreifa. Bjarki Höjgaard lifir sig svo inn í hlutverk sitt sem út úr reyktur, sveppaétandi stóner níunda áratugarins að ég hélt ég myndi missa legkökuna. Þorkell Björn í hlutverki Séra Matthíasar var óborganlegur. Með þetta teygjuandlit og svo óþægilega nærveru að ef ég hefði setið nær útganginum þá hefði ég notað tækifærið meðan hann var á sviði og farið í kaffipásu. Aumkunarverður roluskapur Árna Stálara í tjáningu Brynjars Helgasonar gerði það að verkum að mig langaði svolítið til að klappa honum, gefa honum útrunninn apótekaralakkrís og segja honum að vera bara ekkert að setja lífsmarkið of hátt. Sveinn Brimar Jónsson kemur fram í hlutverki misgáfulegra karaktera og gerði þá alla að sínu. Hann hefur auga fyrir smáatriðum í persónusköpun sinni og það sést hvað hann hefur gaman af þessu. Þá er ég viss um að ég þekki Óla Vopnfirðing og hann er jafn óþolandi og Stefán Jónsson lætur hann líta út fyrir að vera.  

Að lokum verð ég að fá að nefna Bakkus í hlutverki Óla Steinars. Óli er nefnilega svona týpa sem virðist bara stíga upp á sviðið, líða vel þar og svo bara gerist þetta af sjálfum sér. Algerlega í sínu náttúrulega umhverfi þarna drengurinn og ég get alls ekki sagst hafa kennt honum allt sem hann kann, þar sem hann man alls ekki eftir að hafa leikið með mér í Oliver Tvist fyrir mjög stuttu, vestur í Stykkishólmi. Það var alls ekki hjartabrestandi. Alls ekki krakkar. 

Það er þannig að enginn leikhópur er betri en veikasti hlekkurinn. Þessi leikhópur er eldþéttur og maður finnur hvað þau styðja hvert annað og styrkja svo úr verður heild sem skilar frábæru verki. Pétur leikstjóri er öfundsverður af þessum hóp. 

Talandi um leikstjórann. Þennan sem líkt og karakterinn í Little Britain, skrifaði verkið bæði og leikstýrði. Ef ekki væri fyrir Bjartmar þá hefði hann líka samið tónlistina, sungið hana og spilað á trommurnar. 

Að öllu gríni slepptu. Ég er bara orðlaus. Ég spái þessu verki hans, í hans eigin leikstjórn, leikverki ársins hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga og yrði þá, ef mig misminnir ekki, í fyrsta sinn sem það gerðist. Honum tekst að búa til verk sem er þéttriðið (þó það sé bara riðið einu sinni í því) og hann tapar þér aldrei. Það er bæði fyndið og hnyttið en líka dramatískt og sorglegt. Þú tengir við persónurnar vegna þess að Pétur hefur þessa næmni fyrir raunverulegum díalog. Bæði þessum sagða og ósagða. 

Pétur sýnir það og sannar, svo ég vitni í meistara Bólu-Hjálmar, að við hér fyrir norðan eigum margan gimstein þann sem glóir í mannsorpinu. 

P.s. ekki fara með maskara eða bara augnmálningu yfir höfuð. Það verður bara subbulegt.

Sambíó

UMMÆLI