Í okkar höndum að skapa réttlátt samfélag

14798740_1188398821234752_800879159_n,,Það samfélag sem ég vill búa í og skilja eftir fyrir afkomendur mína er samfélag sem byggir á félagshyggju, ekki markaðshyggju“, segir Sindri Geir Óskarsson guðfræðingur í Noregi sem situr í 9. Sæti Vinstri Grænna fyrir komandi kosningar. Sindri fæddist í Osló en ólst upp á Akureyri, hann segist þó hafa rætur og hjarta sem slá í Þingeyjarsveit.

Ólst upp við að stjórnmál skiptu máli

,,Pabbi var og er virkur í stjórnmálastarfi á Akureyri. Við erum reyndar ekki í sama flokk en ég lærði að það er mikilvægt að kjósa og láta sig samfélagið varða. Mamma og pabbi hafa aldrei reynt að innræta mér sínar skoðanir,“ segir Sindri og bætir við að hann hafi þó ekki orðið virkilega áhugasamur um stjórnmál fyrr en á öðru ári í menntaskóla. „Ég eignaðist vini sem voru í UVG, ég leit ekki endilega á mig sen vinstrimann heldur meira svona við miðjuna. En ég var áhugasamur um náttúruvernd og sá að UVG var hreyfing fyrir mig.“ Eftir hrunið segist Sindri hafa farið að taka þátt í mótmælum og mætt á landsfundi VG og hefur ekki litið til baka síðan.

Lítið land sem getur verið heiminum fyrirmynd

Sindri segir flest vandamál sem heimurinn standi frammi fyrir í dag, loftlagsbreytingar, fátækt, misskipting auðs og niðurbrot heilbrigðiskerfisins eiga sér efnahagslega vídd. ,,Við búum núna í efnahagskerfi sem vinnur gegn því að farið sé í róttækar aðgerðir til að mæta loftlagsbreytingum, við búum í kerfi sem stuðlar að því að bilið á milli ríkra og fátækra verði sífellt meira. Efnahagslögmál eru ekki náttúrulögmál, það er ekki náttúrulögmál að fólk í þessum heimi deyji úr sulti á meðan nóg er til af mat eða fólk fari á hausinn við það að verða alvarlega veikt,“ segir Sindri. Fyrir honum er eitt mikilvægasta málefnið verði að horfa frá markaðshyggju sem er drifin áfram af græðgi og setur verðmiða á fólk. ,,Við erum lítið land og getum vel verið heiminum fyrirmynd í þessu.“

Katrín Jakobsdóttir algjör nagli

Sindri leit upp til Steingríms J. Sigfússonar þegar hann byrjaði í pólitíkinni og segist hafa heillast af því hvað hann var harður í horn að taka, slyngur í rökræðum og fastur á sínu. Nú í seinni tíð hafi hann þó litið frekar á Katrínu Jakobsdóttir sem sína fyrirmynd. ,,Steingrímur er sterkur og góður stjórnmálamaður en Katrín er með svolítið annan stíl, hún er algjör nagli en hún fer ekki í skotgrafir. Þegar hún talar heyrirðu einlægni, brennandi hugsjón og sanngirni, það kann ég að meta.“ Sindri segist einnig líta upp til heimsfrægra einstaklinga sem hafa unnið gegn og gagnrýnt ábyrgðarlausa markaðshyggju eins og Elizabeth Warren, Bernie Sanders og Frans páfa. ,,Ef við horfum yfir söguna lít ég upp til Martin Luther King jr. og nálgunar hans á félagslegt óréttlæti og samfélagsbreytingar.“

Þörf á ákveðinni naflaskoðun í samfélaginu

,,VG er náttúruverndar, friðarhyggju, kvenfrelsis og félagshyggjuhreyfing. Fyrir mér stendur VG fyrir réttlæti í sem breiðastri merkingu. Réttlæti fyrir allt fólk, óháð kyni eða uppruna, réttlæti fyrir náttúruna og réttlæti fyrir komandi kynslóðir,“ segir Sindri. Honum finnst stefna VG ansi byltingarkennd að því leyti að hún tekur alvarlega þá staðreynd að samfélag byggt á markaðshyggju er ekki fært um að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og félagslegt óréttlæti. Hann segir þörf á ákveðinni naflaskoðun í samfélaginu og stefnubreytingu. ,, Stefna VG er það sem markaðshyggjufólk kallar fallega hugmynd sem gengur ekki upp, raunin er bara að það er klárlega í okkar höndum að skapa réttlátt samfélag, eina sem stendur í vegi fyrir því erum við sjálf.“ 

Hann segist hafa fengið góð viðbrögð við framboðinu þó einhverjir hafi verið ósáttir við hvað hann reyndi að komast ofarlega á lista. ,,Listinn hjá VG í kjördæminu er sterkur og fjölbreyttur, það hefði þó mátt hafa fleiri ungliða ofar á lista. VG stendur sig reyndar vel heilt yfir landið að hafa ungliða ofarlega“ , segir Sindri sem vill sjá ungt fólk hafa áhrif. Hann segir einnig VG einn af fáum flokkum sem ekki þurfi að grænþvo sig fyrir komandi kosningar eða reyna að mála sig með félagshyggju. ,,Þrátt fyrir að allir lofi bót og betrun í heilbrigðis- og velferðarmálum vitum við alveg að það er innistæðulaust hjá þeim flokkum sem byggja sína stefnu á markaðshyggju. Þú getur ekki þjónað tvem herrum, stefna VG snýr að því að við byggjum upp samfélag sem þjónar hagsmunum heildarinnar, ekki hagsmunum markaðarins.“

 Að lokum talar Sindri um vinsældir Katrínar Jakobsdóttur og að kannanir sýni að hún sé sá íslenski stjórnmálamaður sem nýtur mests traust þvert á flokkslínur og flestir vilji sjá hana í forsætisráðherrastólnum. ,,Til þess að það gerist þarf VG að vera með sterkt bakland í öllum kjördæmum, ég ætla að reyna mitt besta til að vinna að því að VG fái góða kosningu fyrir norðan svo að við getum fengið alvöru velferðarstjórn sem þorir að vinna að betra samfélagi.“

Sjá einnig:

Melkorka Ýrr Yrsudóttir

Bjartur Aðalbjörnsson

Jónas Björgvin Sigurbergsson

Snorri Eldjárn Hauksson

Hildur Bettý Kristjánsdóttir

Sambíó

UMMÆLI