Prenthaus

1.442 íbúð­ir á Ak­ur­eyri í eigu aðila utan sveitarfélagsins

1.442 íbúð­ir á Ak­ur­eyri í eigu aðila utan sveitarfélagsins

Hátt í 1.500 íbúð­ir á Ak­ur­eyri eru í eigu fólks eða lög­að­ila sem hafa heim­il­is­festi ann­ars stað­ar en í bænum. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanni Viðreisnar, og fjallað er um málið á Heimildinni í dag.

Hanna Katrín spurði um fjölda íbúða í eigu einstaklinga og lögaðila í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Alls eru 8,7 prósent allra íbúða á Akureyri í eigu einstaklinga sem búa annars staðar og 7,9 prósent allra íbúða eru í eigu lögaðila sem eru skráð utan sveitarfélagsins. Það eru því 16,6 prósent íbúða á Akureyri í eigu aðila utan sveitarfélagsins eða 1442 íbúðir.

Til samanburðar er hlutfall íbúða í Reykjavík sem er í eigu fólks sem býr annars staðar 5,1 prósent og íbúðir í eigu lögaðila utan svæðisins eru 1,5 prósent.

Hanna Katrín segir í samtali við Heimildina að þessar tölur fyrir Akureyri vekji gríðarlega athygli, ekki síst hversu margar íbúðir séu í eigu einstaklinga sem búsettir séu utan sveitarfélagsins.

„Á Akureyri hefur íbúðaverð farið hækkandi og með því að 16 til 17 prósent íbúða eru í eigu aðila utan svæðisins má velta fyrir sér hvort það hafi áhrif þar á, og geri þá jafnvel fólki, ungu fólki kannski sérstaklega, erfiðara fyrir með að komast inn á fasteignamarkaðinn,“ segir Hanna Katrín við Heimildina.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í samtali við Heimildina að staðan geti verið áhyggjuefni í samhengi við möguleika ungs fólks til að komast inn á húsnæðismarkað en að sama skapi fylgi stöðunni einnig jákvæð áhrif.

„Það er gríðarleg eftirspurn á Akureyri, bæði eftir lóðum og íbúðum, en kannski ekki frá íbúum bæjarins. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga þegar verið er að gera húsnæðisáætlanir í sveitarfélaginu þannig að við erum að skoða þetta okkar megin. Við þurfum að horfa til þessa en ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Þessu fylgja líka alls konar jákvæð áhrif, að gestir vilji sækja bæinn heim og vilji eiga hér húsnæði,“ segir Halla Björk við Heimildina.

Nánar er fjallað um málið á Heimildinni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó