145 stúdentar brautskráðir úr Menntaskólanum á Akureyri

Mynd: ma.is/Sverrir Páll

Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri sleit skólanum í gær, 17. júní við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni. Brautskráðir voru 145 stúdentar. Fulltrúar afmælisárganga og fulltrúi nýstúdenta fluttu ávörp.

Í skólaslitaræðu skólameistara hvatti hann nemendur til að halda áfram að rækta áfram með sér inntak skólasýnar og einkunnarorða skólans. Hann talaði um breytingar á skólakerfinu og álagið sem það hafði sett á starfsfólk með litlum stuðningi frá stjórnvöldum. og að ekki skuli staðið við þau heit að skólarnir njóti fjárhagslegs ávinnings af starfinu.

Starfsfólk og nemendur skólanna hafi unnið þrekvirki í að koma á breytingum á skólakerfinu og verkinu sé alls ekki fulllokið. Mikilvægt sé hins vegar að umræðan um skólana sé uppbyggileg og hvetjandi fyrir þær þúsundir nemenda, flestra ólögráða, sem ár hvert eru í framhaldsskólanámi á landinu. Það sé áríðandi að hlúa að skapandi hugsun þeirra og áræðni að fara út fyrir þekktan ramma.

Jón Már talaði einnig um félagslíf skólans og mikilvægi þess. Þátttaka væri afar mikil og áhugi meðal nemenda líka. Til dæmis hefðu 50 nemendur boðið sig fram til embætta í skólalífinu og í kosningum hefði verið 90% þátttaka. Það sé ekkert sjálfgefið og mikilvægt að hlúa að þessum áhuga í nýju skólakerfi. Öflugt félagslíf sé nauðsynlegt og þegar nemendum sé treyst standi þeir fyllilega undir því.

Meðaleinkunn á stúdentsprófi þetta árið er 7,59. Margir stúdentar hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur sinn. Að þessu sinni hlutu 6 nemendur ágætiseinkunn, 9,0 eða hærra, í stúdentsprófseinkunn, sem er vegið meðaltal allra einkunna öll fjögur skólaárin.

Hæstu einkunn hlaut Erla Sigurðardóttir í 4X, 9,55. Í öðru sæti var Sigríður Júlía Heimisdóttir í 4T, 9,10. Þriðja og fjórða sæti hrepptu Atli Fannar Franklín 4X og Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir 4T , 9,04. Í fimmta sæti er Ragna Vigdís Vésteinsdóttir 4X 9,02. Sjötta er Borgný Finnsdóttir 4A 9,0.

Að lokum þakkaði skólameistari nýstúdentum samstarfið gegnum árin og ítrekaði mikilvægi þess að þeir héldu saman í gleði jafnt og sorg. Hann þakkaði þem sérstaklega fyrir þeirra þátt í þeim breytingum sem yfir hafa staðið. „Menntaskólinn á Akureyri sendir ykkur tilbúin út í lífið, til að takast á við það og háskólanám af hvaða tagi sem er. En munið að þið getið ekki keypt ykkur hamingju. Hún kemur til ykkar þegar þið eruð að strita að því litla fyrir það mikla.“

Sverrir Páll Erlendsson kennari skólans fjallar nánar um athöfnina vef Menntaskólans.

Sambíó

UMMÆLI