beint flug til Færeyja

150 stúdentar brautskráðir frá Menntaskólanum á Akureyri

150 stúdentar brautskráðir frá Menntaskólanum á Akureyri

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 142. sinn í gær, 17. júní. Þetta var síðasta brautskráning skólameistarans Jóns Más Héðinssonar. Alls voru 150 stúdentar brautskráðir.

Brautskráningin fór fram í Íþróttahöllinni og var einnig streymt. Hugrún Lilja Pétursdóttir, Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Sigrún Reem Abed sáu um tónlistarflutning við athöfnina.

Dúx skólans í ár er Róbert Tumi Guðmundsson með 9,85 og Óðinn Andrason er semidúx með 9,8.

Tveir starfsmenn voru sérstaklega kvaddir við brautskráningu; Björg Friðjónsdóttir ræstitæknir sem hefur nýlega látið af störfum eftir 30 ára starf. Björg gat reyndar ekki verið við brautskráningu en skólameistari hafði áður veitt henni gulluglu skólans. Jón Ágúst Aðalsteinsson húsvörður hættir í vor eftir 40 ára starf við MA. Hann fékk gulluglu skólans við brautskráningu. Skólameistari veitti einnig Sigurlaugu Önnu aðstoðarskólameistara gulluglu skólans í þakklætisskyni fyrir samstarfið.

Skólameistari var einnig kvaddur sérstaklega við brautskráninguna og fékk gjöf frá starfsfólki skólans. Það kom fram að hann hefur brautskráð ríflega þriðjung allra stúdenta MA. Frá upphafi (frá 1930) hafa verið brautskráðir 9193 stúdentar og af þeim hefur Jón Már brautskráð 3102. Í kveðjunni var nefnt að ein ástæðan fyrir farsæld Jóns Más sem skólameistara hefði falist í sambandi hans við nemendur, kannski væri einfaldast að segja að hann hafi borið virðingu fyrir nemendum og tekið skoðanir þeirra og álit gilt. Og það sama má auðvitað segja gagnvart starfsfólki.

Nánar má lesa um brautskráninguna á vef Menntaskólans á Akureyri hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó