164 brautskráð úr Menntaskólanum á Akureyri

Mynd: ma.is

Menntaskólanum á Akureyri var slitið 17. júní í 138. sinn. Á meðan gestir flykktust í Íþróttahöllina lék Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir á píanó, en hún er nýr konsertmeistari MA. Við upphaf athafnarinnar léku þrjár stúlkur, Una Haraldsdóttir á píanó, Sólrún Svava Kjartansdóttir á fiðlu og Rún Árnadóttir á selló.

Úr ræðu skólameistara

Jón Már Héðinsson skólameistari hóf mál sitt á að benda á þá megináherslu skólans að hafa velferð nemandans í forgrunni og hún sameinaðist í einkunnarorðunum virðingu, víðsýni og árangri. Hann gat þess að nú væri næstsíðasti fjórði bekkur skólans að brautskrást og næsta vor yrði sá síðasti brautskráður ásamt fyrsta þriðja bekknum, samkvæmt nýrri skólaskipan, sem unnið hafi verið að hörðum höndum. Ráðuneyti menntamála hafi samþykkt nýja námskrá skólans á hefðbundnum sviðum, tungumálum, félagsgreinum, náttúruvísindum og raungreinum. Auk þess byði skólinn upp á tónlistarstúdentspróf í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri og aðra tónlistarskóla á Norðurlandi. Þegar helmingur námsins væri byggður á vali nemendanna yrðu nemendur að nýta sköpunarkrafta sína og skólinn að vera skapandi lærdómsstofnun.

Skólameistari áréttaði að í þriggja ára námskrá yrði bekkjakerfinu haldið og kostir þess nýttir til jákvæðra samkipta, samvinnu og félagsfærni. Í kerfinu fælist jafnframt sveigjanleiki til að taka námið á hálfu til einu ári til viðbótar, ef nemendur kysu það. Lykilatriði væri að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka siðferðisvitund. Og nemendur þyrfti að styðja á misbröttum vegi hvers og eins. Til þess hefði skólinn á að skipta öflugu forvarnateymi, tveimur náms- og starfsráðgjöfum og einum sálfræðingi. Tímarnir hefðu breyst og skólarnir með, „það þarf hugkvæmni til að koma til móts við þennan fjölbreytta nemendahóp. Það er ekki lengur hægt að ganga út frá því að í bóknámi sé hægt að bjóða bara upp á ódýrustu kennsluhættina sem eru fyrirlestrar yfir stórum hópum, nú þarf meiri leiðsagnarkennslu.“

Jón Már sagði frá samstarfi framhaldsskóla á Norðurlandi, meðal annars vel heppnaðri samvinnu MA og VMA á nýliðinni önn, sem framhald yrði á. Menntamálaráðherrar hafi sýnt samstarfi skólanna velvilja, en hins vegar hafi MA ekki fengið fjárveitingu til að færa skólaárið til fulls til samræmis við aðra skóla.

Í skólanum voru í vetur 742 nemendur en starfsmenn voru 80 og skólameistari þakkaði þeim vel unnin störf. Hann kvaddi svo þrjá kennara sem lengi hafa kennt við skólann, Sigurð Ólafsson fyrir 24 ára starf, Sigurð Bjarklind fyrir 40 ára starf og Sverri Pál Erlendsson fyrir að hafa starfað í 44 ár.

Skólameistari fjallaði um mikilvægi félagslífs í skóla og þess að nemendur stýrðu því og skipulegðu sjálfir, þetta væri í raun verkleg æfing í grunnþáttum menntunar. Mjög margir byðu sig fram til embætta í félagsstarfinu og kosningaþátttaka hefði nú verið um 90%. Hann sagði að öflugur skóli þrifist ekki nema með blómlegu félagslífi og að því þyrfti að hlú í styttum skóla. Skólafélagið Huginn hefði sem fyrr stýrt glæsilegri vímulausri árshátíð, Leikfélag MA sýnt LoveStar af metnaði svo eftir hefði verið tekið, sigurvegarinn í söngkeppni MA hefði líka unnið söngkeppni framhaldsskólanna, Gettu betur liðið hefði farið í undanúrslit og Morfís staðið sig með prýði, skólablaðið Muninn hefði komið út vor og haust og jafnréttisráð starfað ötullega, haldnar fjölmargar kvöldvökur og peningum safnað fyrir Aflið í góðgerðaviku. Þá hefðu nemendur staðið sig afar vel í námstengdri keppni, meðal annars í stærðfræði, eðlisfræði, þýsku og ensku og auk þess unnið til verðlauna í ljóða- og sagnagerð. Þá mætti nefna þátttöku í samfélagsverkefnum, afburðanemendur í listgreinum og afreks- og landsliðsfólk í íþróttum. Þannig mætti lengi telja þá góðu nemendur sem bæru hróður skólans víða, heima og erlendis.

Fulltrúar afmælisárganga tóku til máls og færðu skólanum kveðjur og gjafir. Fulltrúi 70 ára stúdenta var Sváfnir Sveinbjarnarson, 60 ára stúdenta Lovísa Sigurðardóttir, 50 ára stúdenta Kristín Indriðadóttir, 40 ára stúdenta Helga Ragnheiður Gunnlaugsdóttir, 25 ára stúdenta Laufey Árnadóttir og fulltrúi 10 ára stúdenta var Konráð S. Guðjónsson. Fulltrúi 25 ára stúdenta greindi frá úthlutun úr Uglusjóði, hollvinasjóði MA.

Skólameistari brautskráði þessu næst 164 nýstúdenta og hlutu margir verðlaun og viðurkenningar fyrir árangur sinn í námi og áhrif á skólalífið. Alls hlutu átta nemendur ágætiseinkunn 9 eða hærra. Hæsta einkunn á stúdentsprófi, sem er meðaltal eikunna öll fjögur skólaárin, hlaut Erna Sól Sigmarsdóttir, 9,56, næsthæstu einkunn hlaut Ragnheiður Pétursdóttir, 9,52, Eva María Aradóttir  hlaut 9,35, Urður Andradóttir 9,33, Hrafnhildur Gunnarsdóttir 9,26, Iðunn Andradóttir 9,22, Ragnar Sigurður Kristjánsson 9,14 og Oddur Pálsson 9,06.

Að brautskráningu lokinni flutti Ingvar Þóroddsson fráfarandi formaður skólafélagsins Hugins ávarp nýstúdenta.

Að lokum flutti skólameistai nýstúdentum kveðjuorð, þakkaði þeim ánægjulegt samstarf og þátttöku í breytingaferli skólans. Hann ítrekaði mikilvægi kveðjustunda og rækt vinabanda og hvatti þá til að trúa á drauma sína, seiglu og hæfileika.

Athöfninni lauk á því að allir sungu skólsöng MA, Undir skólans menntamerki.

Sambíó

UMMÆLI