KIA

2.flokkur Akureyrar dregur sig úr keppni

akureyri

Akureyri Handboltafélag dregur lið sitt úr keppni í 2.flokki.

Akureyri Handboltafélag hefur tekið ákvörðun um að draga lið sitt úr keppni í Íslandsmóti 2.flokks karla. Var ákvörðunin tekin á fundi þjálfara Akureyrar svo og þjálfara 3. flokka KA og Þór. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Akureyri hefur haldið úti þremur liðum í vetur. Flaggskipið er lið Akureyrar í Olís-deild karla. Í 1.deildinni leikur svo ungmennalið Akureyrar og hingað til hefur 2.flokkur keppt í 1.deild 2.flokks.

Ungmennaliðið er skipað leikmönnum sem margir hverjir leika jafnframt með meistaraflokki og eða 2. flokki. Þannig eru tíu leikmenn ungmennaliðsins sem hafa komið við sögu hjá meistaraflokki og átján leikmenn ungmennaliðsins hafa tekið þátt í leikjum 2. flokks það sem af er.

Samkvæmt því sem segir í tilkynningu félagsins er álagið á strákana orðið óheyrilegt og býður það upp á enn frekari meiðsli og forföll sem félagið má ekki við.

2.flokkur hafði spilað vel í vetur og aðeins tapað einum af fyrstu sex leikjum sínum. Þeir leikir hafa nú verið þurrkaðir út og leikir Akureyrar í 2.flokki felldir niður.

Þeir strákar sem eru á 2.flokks aldri munu nú einbeita sér alfarið að því að leika með ungmennaliðinu. Þó er 2.flokkurinn enn skráður í bikarkeppni þess aldursflokks.

Sambíó

UMMÆLI