Origo Akureyri

Lokaverkefni um nýtingu matarafganga í lífeldsneyti 

Lokaverkefni um nýtingu matarafganga í lífeldsneyti 

Við Háskólann á Akureyri eru lokaverkefni stúdenta margvísleg og mörg hver takast á við samfélagslegar áskoranir. Eitt af þeim verkefnum er BS lokaverkefni Garðars Kára Garðarssonar í líftækni, þar sem hann skoðaði nýtingu á lífrænum úrgangi með það markmið að framleiða úr honum  lífeldsneyti. Verkefnið féll þannig vel að markmiðum hringrásarhagkerfisins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en orkuendurnýting er ein leið til þess að halda úrgangsmyndun í lágmarki og minnka þannig meðal annars skaðleg áhrif á líf á landi á sama tíma og staðbundin sjálfbærni samfélaga á borð við Akureyri er aukin.

Matreiðslumeistari með metnað fyrir nýtingu

„Ég valdi líftækni í miðju Covid þegar að matreiðslugeirinn lá í dvala. Valið á líftækni kom til vegna þess að mig hefur lengi langað til þess að leita nýjunga í matvælaiðnaði, hvort sem að það sé í framleiðslu, umbúðir og meðhöndlun eða sóun sem fylgir faginu,“ segir Garðar aðspurður af hverju hann hafi valið að fara í nám við Háskólann á Akureyri.  

Garðar er matreiðslumeistari sem hefur starfað á ýmsum veitingastöðum og hótelum á Íslandi, lengst af var hann á Deplum á Tröllaskaga eða í um sex ár. „Ég var í kokkalandsliðinu í sjö ár, og tók virkan þátt í keppnismatreiðslu á heimsmeistara mælikvarða í fjölmörgum löndum,“ bætir hann við um reynslu sína.

Vinkonurnar sykrur og örverur 

Þessi reynsla og áhugi Garðars kveikti áhugann sem varð að lokaverkefninu enda er hann með gríðarlega mikla innsýn inn í þá matarsóun sem felst í veitingabransanum. Það er mjög verðmætt að fólk með slíka reynslu skoði möguleikana á frekari nýtingu á matvælum. Í verkefninu nýtti hann lífrænan úrgang sem er fjölsykruríkur til þess að mynda endurnýjanlega orku. Sykrurnar eru brotnar niður í minni einingar með rafsegulbylgjum sem örverur, m.a. gersveppir, geta gerjað í lífeldsneyti. Þessar tvær aðferðir – að brjóta niður sykrurnar með rafsegulbylgjum og gerja þær síðan með örverum – reyndust skila góðum árangri saman. Það er mikilvægt að vinna í því að finna leiðir til betri nýtingar á matvælaúrgangi því urðun myndar mikið magn gróðurhúsalofttegundanna metans og koltvísýrings. 

Við óskum Garðari til hamingju með verkefnið og óskum honum velfarnaðar í hverjum þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.

UMMÆLI

Sambíó