337 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri um helgina

337 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri um helgina

Á laugardag voru 337 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri (HA). Athöfnin fór fram í fjórða skipti í húsnæði Háskólans á Sólborg. Eliza Reid forsetafrú var heiðursgestur hátíðarinnar en einnig var Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, viðstaddur. Vigdís Diljá Óskarsdóttir, kandídat í fjölmiðlafræði, flutti ávarp fyrir hönd þeirra sem útskrifuðust í dag og Birkir Blær flutti eigin útfærslur á lögum Mugison. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu HA.

Háskólaárið 2016–2017 stunduðu tæplega 2.000 nemendur nám á þremur fræðasviðum við Háskólann á Akureyri. Skipting kandídata eftir fræðasviðum er eftirfarandi:

  • Heilbrigðisvísindasvið: 95
  • Hug- og félagsvísindasvið: 155
  • Viðskipta- og raunvísindasvið: 87

Háskólahátíðin hófst á ávarpi Eyjólfs Guðmundssonar rektors. Hann fjallaði meðal annars um hugmyndina um sjálfstæðan háskóla á Akureyri sem væri ekki útibú annarrar menntastofnunar og svo stofnun skólans 1987: „Þessi 30 ár hafa verið ævintýri líkust. Skólinn hefur vaxið og eflst langt umfram björtustu vonir. Og hann dafnar enn. Þrátt fyrir mörg erfið ár hefur tekist að viðhalda gæðum náms við skólann. Stöðug fjölgun nemenda hefur þó reynt verulega á innviði og starfsfólk en tekist hefur að viðhalda gæðum náms við skólann. Í vor er enn eitt metið sett í aðsókn að námi við skólann þar sem honum hafa borist yfir 1.600 umsóknir – sem er metfjöldi frá upphafi. Alls brautskrást að þessu sinni 337 kandídatar frá þremur fræðasviðum og 22 námsbrautum.“

Ávarp Eyjólfs Guðmundssonar má lesa í heild sinni hér.

Eyjólfur nefndi ennfremur að nú lægi framtíð Háskólans á Akureyri aftur í höndum menntamálaráðherra líkt og hún gerði á upphafsárum hans. Tvö ár eru liðin síðan skólinn lagði inn umsókn um heimild til doktorsnáms. Síðan þá hefur hann „…gengið í gegnum gæðamat erlendra fagaðila, lagt fram tillögur um skipulag námsins og sýnt fram á hvernig skólinn muni takast á við verkefnið fjárhagslega. Ég hef fulla trú á að núverandi menntamálaráðherra muni, líkt og Sverrir forðum, beita pennanum af færni og áræðni […]. Eftir að hafa tekið þátt í þessu ferli, fundað með erlendum matsaðilum og yfirfarið gögn um starfsemi skólans er ekki nokkur efi í mínum huga um getu fræðimanna við Háskólann á Akureyri til að standa að baki öflugu doktorsnámi á sérsviðum skólans.“

Í ávarpi sínu til kandídata hvatti rektor þá til að vera þátttakendur í samfélaginu: „Það er ekki nóg að skrifa í athugasemdakerfi samfélagsmiðlanna og rífast yfir einhverju sem þið eruð ekki sátt við. Þið verðið að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, á öllum stigum þess, sama hvort um er að ræða samstarf við skóla barnanna ykkar, þátttöku í sveitarstjórnarmálum eða að vera virk í stjórnamála- og félagasamtökum sem vinna samfélaginu gagn á hverjum tíma.“
Að lokum biðlaði rektor til samfélagsins að styðja við baráttu Háskólans á Akureyri fyrir auknum fjárveitingum. Það sé hægt að gera gera með því að ræða við þingmenn sína um mikilvægi háskólamenntunar fyrir samfélagið og setja þessi mál í forsæti, og forgangsraða þannig fjármunum til að tryggja áframhaldandi gott nám: „Stjórnmálamaðurinn og ráðherrann getur lítið gert ef hann fær ekki stuðning, og kannski smá þrýsting, frá kjósendum til þess að forgangsraða málefnum háskóla þegar kemur að því að ákvarða hvernig við nýtum sameiginlega sjóði okkar. Nútíma samfélag sem ekki hefur aðgengi að öflugu háskólanámi mun dragast aftur úr í lífskjörum og almennri velferð. Ég vil því biðla til ykkar, kæru gestir nær og fjær – hjálpið HA til þess að ná athygli ráðamanna þannig að við getum eflt enn frekar þá þjónustu sem skólinn veitir um allt land.“

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í grunnnámi hlutu eftirtaldir:

  • Sálfræði: Kári Erlingsson
  • Kennarafræði: Steinunn Erla Davíðsdóttir
  • Líftækni: Hallgrímur Steinsson

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í framhaldsnámi hlutu eftirtaldir:

  • Heimskautaréttur: Romain Francois R Chuffart
  • Menntavísindi: Þóra Björg Eiríksdóttir
  • Menntunarfræði: Ruth Margrét Friðriksdóttir

Brautskráningin var í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 og gátu því allir landsmenn fylgst með. Kynnar voru Sigrún Vésteinsdóttir og Guðmundur Gunnarsson.

Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra nemenda við HA og annarra velunnara háskólans, veittu viðurkenningar til þeirra nemenda sem hafa starfað ötullega í þágu háskólans svo sem með nefndarsetum og við kynningarstarf. Þrír hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni:

Telma Eiðsdóttir (hug- og félagsvísindasvið), Hrafnhildur Gunnþórsdóttir (heilbrigðisvísindasvið) og Karen Björk Gunnarsdóttir (viðskipta- og raunvísindasvið).

www.danielstarrason.com (www.unak.is)

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó