NTC netdagar

,,Frábær og samheldin fjölskylda“

thorka_2011

Keppni í Pepsi-deild kvenna lauk um síðustu helgi. Þór/KA lauk keppni í 4.sæti deildarinnar, annað árið í röð. Kaffið.is fékk Karen Nóadóttur, fyrirliða Þór/KA til að gera upp sumarið. Gefum Karen orðið:

Upphitun hefur mér alltaf þótt hundleiðinleg, „hælar í rass“ og „há hné“ eru sennilega meðal ofnotuðustu og leiðinlegustu setninga í boltanum…Upphitun tekur langan tíma og maður fær ekki að gera neitt af því sem er skemmtilegast við fótboltann, að spila leikinn; að keppa.

Undirbúningstímabil er svipað. Þetta byrjar allt saman í nóvember og virðist engan endi ætla að taka. Maður hoppar yfir keilur og hlið á báðum eða ,,einari“, sendir bolta í hring í kassa, gerir hvern samninginn við Djöfulinn á fætur öðrum í einhverri hlaupaæfingu sem Moli fann á milli eyrnanna sinna og djöflast í ræktinni eða reynir að drukkna ekki á sundæfingunum hjá Röggu Run. Kappleikirnir á þessum dimma tíma eru af skornum skammti, sér í lagi hjá kvennaliði á Norðurlandi sem hefur hvorki þátttökurétt í Reykjavíkur- né Faxaflóamótunum og hefur enn ekki verið boðið að koma inn sem gestalið í Kjarnafæðismótið karlamegin. Þeir leikir sem við spilum eru ýmist við 3. eða 4.flokk karla, eftir því í hvaða skapi Jói er í hverju sinni; hvort hann vilji að við náum að spila einhvern fótbolta eða finnst við þurfa að missa nokkur kíló og hlaupa eins og Duracell kanínur á eftir tæplega kynþroska strákum.

Það er svo loks í febrúar sem það tekur að birta til og Lengjubikarsleikirnir fara að detta inn. Þetta árið fengum við þrjá heimaleiki af fimm sem þótti mikið gleðiefni enda átti eftir að fara í ófáar ferðirnar suður á næstu mánuðum. Skemmst er frá því að segja að við unnum ekki þann bikar, sem er ákveðinn skellur verandi með mannskap þar sem meðalaldurinn rétt slefar yfir fermingarárin. Mestu vonbrigðin við þetta mót voru þó þau að við misstum einn okkar sterkasta og mest drífandi liðsfélaga, Ágústu, í grautfúl krossbandsslit.

Engin var æfingaferðin til Spánar eins og mörg lið fara í til að sleikja sólina og sprikla með bolta á iðagrænu grasinu. Við hentum okkur í staðinn í bústað rétt utan við Húsasmiðjuna en margir vilja meina að um sambærilega staði sé að ræða.

Seinni hluta aprílmánaðar fengum við liðsstyrk að utan, mexíkósk súpa sem var svona líka stórgóð og fyllti upp í hryggjarsúlu liðsins, markmaður – miðjumaður og senter. Við fengum líka gífurlega góðan leikmann í Írunni sem var í ævintýraleit, vildi prófa eitthvað nýtt og framandi og flutti til Akureyrar. Um mitt tímabil fengum við svo Z til okkar en hún lyfti liðinu svo sannarlega á hærra plan.

h7-160529458

Karen Nóadóttir á fleygiferð í sumar. Mynd: Vísir

Biðin mikla eftir því skemmtilegasta tók enda þann 11.maí þegar Pepsideildin byrjaði. Útileikur gegn Stjörnunni, tapaðist 4-0, við vorum greinilega ekki búnar að hita nægilega vel upp fyrir þann leik. Næstu leikir á eftir voru upp og ofan, við unnum slatta, gerðum nokkur vel svekkjandi jafntefli og töpuðum þremur leikjum. Skemmst er frá því að segja að við unnum ekki þann bikar, hins vegar vilja menn meina að ef mótið hefði verið lengt um 5-6 leiki hefðum við sennilega staðið uppi sem sigurverar, svo mikill var stígandinn í liðinu eftir því sem leið á mótið. 4.sætið var hins vegar niðurstaðan og er það í 9.árið í röð sem Þór/KA endar í einu af efstu fjóru sætunum. Ef hlaupið er yfir bikarkeppnina, þá nei, við unnum ekki þann bikar heldur, þrátt fyrir hetjulega tilraun til að komast í úrslitaleikinn í framlengdum leik gegn ÍBV í undanúrslitunum en sá leikur tapaðist naumlega 0-1.

Eins og ég kom inná var meðalaldur liðsins á undirbúningstímabilinu ansi lágur en aldursmunur milli einstaklinga spannaði nánast heila mannsævi, þrátt fyrir að undirrituð væri elsti leikmaður liðsins, aðeins 26 ára gömul. Aldurinn jókst eilítið með tilkomu liðsstyrksins okkar en áfram spiluðum við á mjög ungum stelpum og enn yngri stelpur voru í æfingahópnum okkar. Þrátt fyrir ungan aldur eru þær gífurlega öflugar og hafa bæði hugarfarið og taugarnar sem til þarf til að bæta sig og ná langt í boltanum, þær eru án efa framtíðarstoðir í liði ÞórKA og verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu árum.

Þrátt fyrir aldursmuninn erum við í Þór/KA, bæði stelpur og fólkið í kringum okkur afar samheldinn hópur. Mýmörg hópefli og ófáar fjáraflanirnar gerðu það að verkum að úr varð þessi frábæra og samheldna fjölskylda sem sýndi það oft í sumar að hún er til staðar þegar á þarf að halda. Við gengum í gegnum erfiða tíma þegar við misstum hana elsku Kollu frá okkur í júní en það var auðséð þá hversu þétt við stöndum og allir faðmar voru galopnir. Maður finnur fyrir Kollu í kringum liðið, heyrir enn í henni á leikjum og finnur handbragðið hennar í mörgu sem við kemur Þór/KA og starfinu í kring. Á lokahófi sumarsins var veittur í fyrsta skiptið farandbikar sem ber heitið Kollubikarinn en hlutverk hans er að halda uppi heiðri Kollu okkar og þeirra gilda sem einkenndu hana bæði sem einstakling og fótboltakonu. Henni munum við aldrei gleyma.

Að tímabilinu loknu lá fyrir að Jói okkar myndi ekki halda áfram sem þjálfari ÞórKA eftir fimm frábær ár. Það þóttu leiðinlegar fréttir en nokkuð skiljanlegar þar sem maðurinn hefur varla séð öll 18 börnin sín á Húsavíkinni meðan hann hefur sinnt börnunum sínum í Þór/KA, og þau nánast farin að kalla hann fjarskyldan frænda. Með Jóa náðum við miklum árangri, náðum ýmsum áföngum sem ekki höfðu áður náðst og ber þar hæst að nefna Íslandsmeistaratitla í mfl. og Íslands- og Bikarmeistaratitil í 2.fl. Hann hefur gert okkur að betri leikmönnum með fagmannlegra viðhorf gagnvart íþróttinni okkar. Moli á vissulega sinn stað í hjarta okkar allra og er uppgangur Þór/KA undanfarin 10 ár að miklu leyti honum að þakka.

Að lokum vil ég þakka öllu því meiriháttar fólki sem hefur unnið með og í kringum okkur undanfarin misseri. Þetta fólk er óeigingjarnt, vinnur heilmikið og gott starf með það að leiðarljósi að skapa okkur stelpunum sem bestar mögulegar aðstæður til að stunda okkar íþrótt sómasamlega. Við erum óendanlega þakklátar.

Hafið þið lesið þennan pistil til enda eigið þið skilið klapp og lokaorðin mín verða tekin beint frá Mola „hann má vera of langur en ekki of stuttur“.

Fyrir hönd Þór/KA

Karen Nóadóttir, fyrirliði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó