Gæludýr.is

38 nemendur brautskráðust úr námi í SÍMEY

38 nemendur brautskráðust úr námi í SÍMEY

Þrjátíu og átta nemendur brautskráðust af eftirfarandi námsbrautum í SÍMEY 8. júní sl.: Help Start 1 (unnið með grunnorðaforða í ensku og undirstöðu í málfræði og setningamyndun í ensku), Help Start 2 (framhaldsnám í ensku), Menntastoðum (undirbúningsnám fyrir frumgreinadeildir Keilis, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík, námið má einnig meta til eininga í bóklegum greinum iðnnáms), Grunnmennt 2 (ætlað fólki sem vill byggja upp haldgóða undirstöðu í kjarnagreinunum og undirbúa sig skv. aðalnámskrá framhaldsskóla; íslensku, stærðfræði og ensku – einnig námstækni, samskipti og tölvu- og upplýsingatækni), Myndlistarsmiðju (áhersla er lögð á að þátttakendur öðlist færni í grunnatriðum myndlistar og afli sér þekkingar og leikni með vinnu sinni) og Félagsliðabrú (fyrstu 4 annirnar af 6 anna námi félagsliða, samtals 76 einingar – félags-, sál- og uppeldisgreinar sem og sérgreinar á sviði fötlunar- og öldrunarþjónustu). 

Brautskráningarnemar á þessari vorútskrift voru færri en oft áður enda höfðu fjölmargir nemendahópar lokið námi og útskrifast fyrr á vorönninni, t.d. af íslenskunámskeiðum, vefnámskeiðum og námskeiðum í fyrirtækjaskólum.

Fram kom hjá Valgeiri Magnússyni framkvæmdastjóra SÍMEY að fjöldi þátttakenda hjá SÍMEY sé um 4000 á ári, meðal annars í námi, raunfærnimati og í ráðgjöf. 

„Það er ætíð gleðiefni að ljúka námi, að ljúka áföngum í lífinu af hvaða  tagi sem það er. Þá er tími til að staldra við, fara yfir farinn veg og ígrunda aðeins hverju við höfum bætt við okkur eftir það sem á undan er gengið. Mér finnst mjög trúlegt að þið finnið breytingar hvað þetta varðar. Nám er ekki bara hið „námslega“ eða „bóklega“, það er líka sú staðreynd að hafa tekið skrefið, að hafa kynnst nýju fólki, farið út fyrir kassann, tekist á við nýjungar og nýja tækni. Hafa mögulega mistekist, hafa haldið áfram og kannski lært af því. Svona mætti lengi halda áfram því nám er allskonar. Einn stærsti þáttur þess er sjálfsskilningur og að átta sig á styrkleikum sínum, vinna með öðrum, efla víðsýni og samkennd. Nám er dálítið eins og ísjaki, allt sem er undir yfirborðinu skiptir líka svo miklu máli. Samskipti, aðlögunarhæfni, tjáning, fjölmenningarnæmni o.s.frv. Að kynnast nýju fólki og efla tengslanetið er líka mikilvægt. Að því sögðu langar mig að ítreka mikilvægi þess í lífinu að rækta sjálfan sig, jafnvel að vera góður við sjálfan sig, stundum þurfum við klapp á bakið.Við eigum ekki endilega að hlaupa hraðar og hraðar eftir óljósum kröfum umhverfis og samfélags, slíkt getur orðið endasleppt og endalaust hlaup. En ef við eflum vellíðan okkar, ræktum okkur – og hluti af því getur verið að takast á við nýjar áskoranir eins og nám og efla færni, þá finnum við kraftinn til þess að geta tekist á við nýja hluti og aukið möguleika okkar. Sjálfsrækt getur líka verið að staldra við, taka þátt í námi eða annarri færnieflingu, að hofa á hlutina með nýjum gleraugum frá öðru sjónarhorni. Framhaldsfræðslan á að vera nákvæmlega vettvangur fyrir þetta, að veita fullorðnu fólki svigrúm til að finna sjálfan sig í viðeigandi umhverfi þar sem það hefur ráðrúm til að tengja saman námsvettvang og sinn reynsluheim og þekkingu. Að staðsetja sjálfan sig,“ sagði Valgeir Magnússon meðal annars í ávarpi sínu við brautskráninguna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó