40 milljónir í ferða- og menningarstarfsemi á Akureyri

40 milljónir í ferða- og menningarstarfsemi á Akureyri

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður Akureyrarstofu, segir frá því á Facebook síðu sinni að Akureyrarstofa hefur unnið að undirbúningi aðgerða í ferða- og menningarstarfsemi fyrir það óvenjulega sumar sem framundan er – sumarið 2020.

Hún segir frá því að í undirbúningsferlinu hafi starfsmenn verið í samtali og samskiptum við fjölmarga aðila í ferðaþjónustu, menningarstarfi og viðburðahaldi og að afurðin sé tillaga í þremur liðum sem var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.

„Í fyrsta lagi er um að ræða sérstakt markaðsátak fyrir Akureyri á innanlandsmarkaði. Þar er horft er til þess að byggja markaðssetninguna á sérstöðu okkar: nálægð við náttúruna og endalausa útivistarmöguleika á sama tíma og í boði er iðandi mannlíf, verslun og góð þjónusta á öllum sviðum. Eins á að vekja athygli á perlunum okkar; Hrísey og Grímsey,“ skrifar Hilda Jana.

Annar liður tillögunnar er styrktarsjóður sem hefur breiða skírskotun og á að ná til fjölbreytilegs hóps aðila í ferðaþjónustu, menningarlífi og íþrótta- og útivistageira. Markmiðið er að virkja sem flesta sem hafa aðstöðu og sköpunarkraft til að þróa fjölbreytt framboð sem henta fólki á öllum aldri. Gjarnan framboð á afþreyingu, skemmtun eða upplifun sem öll fjölskyldan getur notið saman. Bæði gæti verið um að ræða ný verkefni sem og eflingu einhvers sem fyrir er.

Þriðja aðgerðin er aukafjárveiting í menningarsjóð. Hún á að nýtast í skapandi verkefni og menningarviðburði sem geta verið óháðir markaðs- og vöruþróunarátakinu og þar að auki verið verkefni sem ekki koma til framkvæmda fyrr en næsta haust eða vetur. Með því móti má bregðast við þeirri eyðu sem orðið hefur í viðburðahaldi og menningarstarfi á meðan á samkomubanni og takmörkunum hefur staðið.

Bæjarstjórn samþykkti að verja allt að 40 milljónum króna í þessi verkefni sem Hilda Jana telur að séu ákaflega mikilvæg innspýting fyrir bæjarfélagið, bæði nú og til framtíðar.

„Með þessu móti getum við sýnt í verki að stundum er sókn besta vörnin. Staðan er þröng og óvissan enn mikil en einmitt þess vegna tel ég mikilvægt að sýna líka sóknarhug.“

UMMÆLI

Sambíó