80 manns komu að snjóflóðaæfingu viðbragðsaðila í SkarðsdalEngir tveir viðbragðsaðilar eru eins. Til að mynda eru sumir þeirra loðnari en aðrir. Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystra

80 manns komu að snjóflóðaæfingu viðbragðsaðila í Skarðsdal

Í fyrradag, miðvikudaginn 17. apríl, var haldin æfing með viðbragðsaðilum á Tröllaskaga þar sem settur var upp snjóflóðavettvangur á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Æfingin var sett þannig upp að tíu aðilar höfðu lent í snjóflóði, sumir höfðu grafist í því en í aðra sást og hægt var að ræða við. Allir þurftu þessir aðilar aðhlynningu og voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Siglufirði. Þetta kemur fram á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi Eystra, þar sem einnig segir:

Í verkefni sem þessu reynir á samstarf allra, allt frá starfsfólki skíðasvæðisins, viðbragðseiningar innan Tröllaskaga sem og í Eyjafirði öllum. Þegar aðilar grafast í snjóflóðum þá skipta sekúndur og mínútur máli og því er mjög mikilvægt að brugðist sé rétt við og þekking og búnaður sé til staðar.

Æfingin gekk með ágætum og líkt og alltaf þá eru einhverjir þættir sem koma upp og við áttum okkur á að huga þarf betur að en þetta var fyrsta stóra æfingin sem haldin hefur verið með þessum hætti á Tröllaskaga.

Mjög góð þátttaka var og komu samtals um 80 manns að æfingunni. Í lok hennar var þátttakendum á Tröllaskaga boðið til súpu í húsnæði björgunarsveitarinnar Stráka á Siglufirði. Þar var einnig tekin rýni á æfinguna að hálfu vettvangsstjóra og verkþáttastjóra.

UMMÆLI