9 stúdentar í Sjávarútvegsskóla GRÓ í ár

9 stúdentar í Sjávarútvegsskóla GRÓ í ár

Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna frá upphafi hans árið 1998. Skólinn er nú nefndur Sjávarútvegsskóli GRÓ – eftir að hann var fluttur undir GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta- vísinda- og menningarmálastofnun Sameinðu þjóðanna.

Í ár eru 9 stúdentar sem sækja skólann sem er hýstur í HA. Stúdentarnir eru frá El Salvador, Líberíu, Sierre Leone, Kenýa, Namibíu og Grænhöfðaeyjum og munu dvelja hér fram í apríl.  

„Þau eru að læra um hvernig á að stjórna fiskveiðum í mjög víðu samhengi, hvernig veiða má á sjálfbæran hátt, hvernig hafa má veiðarnar arðbærar og hvernig samfélagið getur haft sem mestan hag af. Dagskráin er mjög fjölbreytt og það eru 18 starfsmenn HA sem leiðbeina og kenna hópnum. Auk þess sem mikið samstarf er við Fiskistofu,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, deildarforseti Auðlindadeildar og umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans.

Þróunarsamvinnumiðstöðin, sem skólinn er nú hluti af, heitir fullu nafni Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og er sjálfstæð miðstöð um uppbyggingu færni og þekkingar í þróunarlöndunum, eins og kemur fram á vefsíðu Hafrannsóknarstofnunar. Hún er byggð á grunni Sjávarútvegsskóla sameinuðu þjóðanna (nú GRÓ), Utanríkisráðuneytis og Hafrannsóknarstofnunar. 

GRÓ er mikilvægur þáttur í alþjóðasamstarfinu og eflir tengslanet HA um allan heim.

Frétt: unak.is


UMMÆLI