Verðstríð í bensíni á Akureyri

Verðstríð í bensíni á Akureyri

Þrjár bensínstöðvar á Akureyri hafa lækkað eldsneytis­verð sitt í vikunni. Á mánudaginn var greint frá því hér á Kaffinu að verðið lækkaði á eldsneytislítranum hjá Atlantsolíu við Baldursnes niður í 185,5 krónur.

Sjá einnig: Atlantsolía lækkar eldsneytisverð á Norðurlandi til muna

Í kjöl­farið brugðust Ork­an og ÓB við á Ak­ur­eyri og lækkuðu sitt eldsneytis­verð í samræmi við verðlækkanir Atlantsolíu. Stöðvar sem hafa lækkað eldsneytisverðið eru Atlantsolía við Baldursnes, Ork­an á Mýr­ar­vegi og ÓB við Hlíðarbraut.

Nú bjóða þessar stöðvar upp á eldsneytisverð í samræmi við það sem hefur viðgengist á stöðvum á höfuðborgarsvæðinu í nágrenni við Costco í Garðabæ.

Verðið er nú lægst hjá Orkunni sem býður lítrann á 185,4 krónur en verðið er 185,5 krónur á hinum tveimur stöðunum.

Í umfjöllun um verðstríðið í Morgunblaðinu segir að til samanburðar sé almennt verð á bens­íni hjá Ork­unni á Hörgár­braut 215,6 krón­ur og hjá Atlantsol­íu á Gler­ár­torgi og ÓB á Sjafn­ar­götu 215,7 krón­ur. Þá er lítra­verð hjá  N1 á Ak­ur­eyri 214,9 krón­ur.

UMMÆLI

Sambíó