Á að skella sér í „ræktina“?

Á að skella sér í „ræktina“?

Flestir leitast eftir því að komast í heilbrigt ástand. Sumir vilja meira að segja meina að góð heilsa sé eitt það verðmætasta sem við komumst yfir. En hvernig stuðlum við að því að vera við góða heilsu?

Margir hugsa strax um að borða náttúrulegan og hollan mat. Stunda reglulega hreyfingu. Fá nægan og góðan svefn. Vissulega eru þetta allt mikilvægir þættir en hér er líkamlegt heilbrigði í aðalhlutverki. Og heilbrigði er margslungnara en það.

Eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnun bendir á í skilgreiningu sinni á heilbrigði þá snýst það ekki einungis um að vera laus við sjúkdóma heldur líka að búa við líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Þetta er ástand sem mörgum finnst kannski óraunhæft en það jákvæða við skilgreininguna er að hún bendir okkur á að heilbrigði snýst um meira en líkamlega þætti. Það er ekki nóg að huga að starfsemi líkamans. Það þarf líka að beina athygli að andlegu og félagslegu heilbrigði. Þó að auðvitað tengist þetta allt saman flóknum böndum.

Flestir hafa góða þekkingu á því hvernig við hugsum vel um líkama okkar. Hvernig lífstíll er góður fyrir kroppinn. En færri eru meðvitaðir um hvernig maður hlúir að geðheilsunni. Hvað gerir maður í geðræktinni? Eins og komið hefur fram þá tengist líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði sterkum böndum. Og ef að okkur líður vel líkamlega eru meiri líkur á vellíðan andlega og félagslega. Þannig að geðrækt snýst vissulega líka um mataræði, hreyfingu og svefn. En svo eru margir aðrir þættir sem hægt er að gera til að rækta geðheilsuna. Og við þurfum að gefa okkur tíma, orku og pening til að gera þessa hluti. Af því að andlega og félagslega heilsan er alveg jafn mikilvæg og sú líkamlega. Margir eiga hins vegar erfiðara með að fjárfesta í andlegu og félagslegu heilsunni. Þurfum við ekki að breyta því?

Alveg eins og það eru til margar leiðir til að hreyfa líkamann, þá eru til margar leiðir til að rækta geðheilsuna. Það er hjálplegt fyrir flesta að tileinka sér jákvæðni og þakklæti en slíkur hugsunarháttur auðveldar okkur að takast á við verkefnin í lífinu. Það er með misjöfnum leiðum sem við vinnum að þeim hugsunarhætti. Fyrir suma virkar vel að tala við einhvern. Hvort sem það er sérfræðingur, vinur eða fjölskyldumeðlimur. Aðrir sækjast í nota skrif, hvort sem það er persónuleg skrif eða opinber. Enn aðrir finna svo þakklæti og jákvæðni í gegnum einhvers konar hugleiðslu. Með öllum þessum aðferðum er líka hægt að skoða hver eru gildi manns, draumar og markmið í lífinu. Það getur kannski verið erfitt að vita hver tilgangur lífsins er en við erum öll fær um að finna okkur einhvern tilgang. Það þarf ekki að vera merkilegt en hjálpar okkur að fara á fætur á morgnanna. Lífið er síðan algjör rússíbanaferð þar sem stundum er virkilega gaman en stundum er minna gaman. Og það er fullkomlega eðlilegt. Það er eðlilegt að finna stundum fyrir auðveldum tilfinningum og á öðrum tímum fyrir erfiðum tilfinningum. En þá er gott að búa yfir heilbrigðum aðferðum til að takast á við erfiðu tilfinningarnar. Vinna úr þeim. Leyfa þeim að líða hjá með því að dreifa huganum. Ekki fara inn í hegðun sem rífur mann niður og veldur skaða. Það geta því komið stundir þar sem þú neyðist til að fara í geðræktina þína vegna óvæntra tilfinninga. En þá er gott að vera með tilbúin verkfæri í kistunni sinni. Síðast en ekki síst er nauðynlegt að nefna félagslegu samskiptin til að vinna með í geðræktinni. Síðastliðið ár hefur einkennst af samkomubanni, fámenni, einangrun og sóttkví. Margir hafa fundið fyrir því hvað samskipti við annað fólk eru mikilvæg og það er staðreynd að einmanaleiki ógnar geðheilsunni enda er maðurinn félagsvera. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að tengjast öðru fólki. Hvort sem það er í gegnum fjölskyldu, vinnu, nám, áhugamál, sjálfboðastarf eða hverju sem er. Komdu þér í samskipti sem næra þig og þína heilsu.

Það er ekki til nein ein leið sem hentar fyrir alla til að rækta geðheilsuna. Hver og einn þarf að finna hvað hentar sér. Þú þarft að finna hvað nærir þig andlega. Þú þarft að búa til þína geðrækt. Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi til að koma sér af stað en kannski virkar eitthvað allt annað fyrir þig. Og á meðan það virkar, þá er það frábært. Eina sem þú þarft að muna er að þú átt að gefa þér tíma, orku og pening til að fara í geðræktina. Alveg eins og þú tekur frá tíma og borgar þig inn til að fara í ræktina til að lyfta eða hlaupa. Þá máttu gera það sama með hluti sem næra þig andlega. Þannig að byrjaðu í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Taktu kvöldið frá til að hitta vinina. Sestu niður með góða bók í staðinn fyrir að hamast við heimilisþrif. Skráðu þig á námskeið í jóga. Eða prófaðu eitthvað nýtt og spennandi. Ekki hafa samviskubit yfir að setja þig og þína heilsu í fyrsta sæti. Hvort sem það er líkamleg, andleg eða félagsleg heilsa. Af því að þú skiptir máli og átt það skilið.

*Mental health is not a destination, it’s a process. It’s about how you drive, not where you are going*

UMMÆLI