Að sleppa stjórninni og fá stjórn

Að sleppa stjórninni og fá stjórn

Sem einstaklingur með átröskun hef ég fengið mikla fræðslu um heilbrigðar fæðuvenjur. Það sem myndi flokkast undir ,,eðlilegt og heilbrigt mataræði”. Ég hef farið á marga fyrirlestra og átt í mörgum samræðum við næringarfræðinga um nákvæmlega þetta viðfangsefni. En ég á hins vegar erfitt með að trúa þessum upplýsingum sem ég hef fengið. Af því að allt í kringum mig er fólk sem forðast kolvetni. Talar um að svindla þegar það fær sér súkkulaði. Deilir markmiðum sínum um að borða minna. Ég er ekki að segja að allir séu með átröskun en það má hins vegar segja að samfélagið í heild sinni er með brenglað samband við mat. Það er því ekki skrítið að í þessu umhverfi sé erfitt að byggja upp þetta heilbrigða samband við mat.

Mér finnst áhugavert hvað margir falla í gildru megrunarkúra. Flestir kúrar dulbúa sig sem lífstílsbreytingu. Þeir lofa heilbrigði en fyrst og fremst þyngdartapi. Þeir hjálpa þér að hafa stjórn á mataræðinu sem mörgum finnst svo erfitt. Vandamálið er hins vegar að þegar við reynum að hafa of mikla stjórn, setjum reglur, boð og bönn þá leiðir það einfaldlega til stjórnleysis.

Hluti af þessu eru lífeðlisfræðileg viðbrögð. Jú, flestir megrunarkúrar ráðleggja einstaklingum nefninlega að borða alltof lítið eða einhæft. Og þegar líkaminn fær of litla næringu þá grípur hann til aðgerða til að lifa af. Hann hægir á efnaskiptunum. Hann passar upp á þá litlu næringu sem hann fær og breytir öllu umfram í fituforða. Og svo þegar hann getur ekki meira þá fær hann þig til að taka átkast. Þar sem þú ákveður að leyfa þér bara að borða helling. Kannski jafnvel svo mikið að þér verður illt. Þá kemur samviskubitið og skömmin í heimsókn. Sem fær þig til að byrja aftur upp á nýtt á morgun. Til að bæta upp fyrir átkastið. Í staðinn fyrir að efast um megrunarkúrinn og hans reglur þá ferðu að rífa þig niður að geta ekki staðist freistingar. En það er engin skömm í því að missa stjórnina þegar maður sveltir líkamann. Já, mjög margir eru að svelta sig án þess að vita jafnvel af því. Lausnin er því andstætt það sem kúrarnir segja, borðaðu meira og fleiri tegundir af mat. Þá mun líkaminn ekki kalla á þessi átköst og stjórnleysi.

Hluti af stjórnleysi sem getur leitt til átkasta eru líka sálfræðileg viðbrögð. Um leið og eitthvað er bannað þá finnst okkur það spennandi. Þegar við setjum ís á bannlista förum við að hugsa meira um ís. Við skoðum ísinn í matarbúðinni. Við tölum um ís við aðra. Og horfum löngunaraugum á aðra þegar þeir borða ís. Svo kemur oftast af því að við getum ekki meira. Okkur langar bara í smá ís. Og við fáum okkur ís. En þegar það er búið að eyðileggja allt hvort eða er, þá getum við alveg eins klárað dolluna. Eftir óhóflega ísátið, sem mögulega einkenndist af hraða og stjórnleysi, þá upplifum við eftirsjá. Ekki meiri ís hugsum við. Hann er á bannlista. Og sama sagan heldur áfram hring eftir hring. Betri lausn væri hins vegar að hafa engan bannlista og leyfa sér ís þegar manni langar í ís. Þá skapast ekki þessi þráhyggja. Og þá eru ekki eins miklar líkur á að við missum okkur þegar við loksins borðum ís. Eða hvað annað sem það nú er.

Margir upplifa stjórnleysi í mataræðinu sínu og halda að þeir þurfi að hafa meiri stjórn. Vera með fleiri reglur. Borða hreinna fæði. Borða minna. En mögulega þurfum við að borða meira og fjölbreyttara svo líkaminn sé ekki í sveltiástandi. Sleppa reglum, boðum og bönnum til að losna við þráhyggjuna. Og hlusta meira á hvað okkur langar virkilega í. Ef að líkaminn kallar á súkkulaði. Fáðu þér bita og borðaðu í núvitund. Ef líkaminn kallar á epli, gerðu það sama. Við höldum að ef að við borðum eftir löngun að þá munum við einungis borða skyndibita og sætindi en vel nærður einstaklingur fær svo sannarlega löngun í safaríkt salat, græna drykki og soðinn fisk. Það hljómar kannski ógnvænlegt að sleppa stjórninni á mataræðinu en mögulega fær maður mesta stjórn við að gera nákvæmlega það.

*If you have to keep ,,cheating” on your diet, chances are it’s not sustainable nor is it a lifestyle*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

UMMÆLI

Sambíó