Að uppskera ekki árangur erfiðis

Grétar Skúli Gunnarsson skrifar

ÍBA úthlutaði KFA aðstöðu í Sunnuhlíð fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Við höfum staðið á bakvið 80% af raunrekstrarkostnaði á rekstri aðstöðunnar. Þetta þýðir að æfingargjöld og þátttökugjöld félagsins hafa þurft að fara í að borga hita, rafmagn, klósettpappír, ræstingu, og áhaldakaup.

Í KFA er skipulögð kennsla og þjálfun í lyftingum frá morgni til kvölds. Við höfum haft öflugt sjálfboðaliðastarf og byggt upp öflugan hóp lyftingamanna án stuðnings bæjarfélagsins. Við höfum haft það að leiðarljósi að ef við myndum byggja upp öflugt íþróttastarf værum við gjaldgeng til þess að fá stuðning bæjarins í samræmi við önnur íþróttafélög. Það var ástæðan fyrir því að ég sem ungur maður gekk í stjórn félagsins, krafðist þess að við myndum ganga aftur inn í ÍSÍ og vinna markvisst að þessum markmiðum.

Nú 10 árum og mörg hundruð þúsund klukkutíma sjálfboðavinnu seinna er skilningur bæjaryfirvalda enginn og það liggur fyrir að stuðningur bæjarins við félagið verður enn meira skertur. Við erum að standa okkur vel í að sjá um íþróttastarf og æskulýðsstarf.

Húsnæðislausnir félagsins eiga ekki að vera svona mikið vandamál og það er mín skoðun að bærinn getur alveg gefið okkur hlut af þessum 2000 milljónum sem fara í íþrótta- og æskulýðstarf. Við erum að sjálfsögðu ekki að biðja um neina sérmeðferð, bara réttláta meðferð. Þegar hver einasti fundur með ráðamönnum um þessi málefni fer í að útskýra muninn að æfa í KFA og almennri líkamsrækt verður maður bara reiður.

Staðreyndin er bara sú að á Akureyri hefur verið starfandi öflugt lyftingafélag í meira en 40 ár og húsnæðismál og opinber stuðningur verið vandamál allan tímann.

Höfundur er formaður KFA

Greinin er aðsend – skoðanir þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó