Að vilja ekki lækka kosningaaldurinn er eintóm íhaldssemi

Svava Guðný Helgadóttir skrifar

Fjórtán þingmenn úr nær öllum flokkum hafa lagt fram frumvarp þess efnis að kosningaaldurinn á Íslandi verði færður úr 18 árum í 16 ár. Það yrði byrjað með því leyfa 16 ára unglingum að kjósa í sveitarstjórnarkosningum 26. maí 2018. Það eru hins vegar ekki allir ánægðir með þessa breytingu.

Kosningaréttur er réttur fólks til að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Kosningaaldur er sá aldur þar sem fólk má nota kosningarétt sinn í landinu eða ríkinu þar sem það hefur lögheimili. Það getur verið mismunandi hvaða aldur er miðað við til að byrja að kjósa, hann er 18 ár á Íslandi og mörgum öðrum löndum. Íslendingar fengu fyrst kosningarétt með tilskipun Danakonungs árið 1843 þó með ströngum reglum. Reglurnar voru rýmkaðar og árið 1915 fengu konur kosningarétt 40 ára og eldri meðan karlmenn fengu að kjósa 25 ára. Árið 1934 var kosningaaldurinn lækkaður í 21 ár fyrir bæði konur og karla. Árið 1968 var hann lækkaður í 20 ár. Kosningaaldrinum var síðast breytt 1984 í 18 ár. Nú eru hugmyndir um að breyta honum í 16 ár.

Þegar unglingar verða 16 ára byrja þeir að borga skatta af laununum sínum og eru þar með byrjaðir að hjálpa til við uppbyggingu samfélagsins. Þrátt fyrir það fá þeir ekki að hafa neitt um það að segja hvað gerist í samfélaginu og hvernig það mótast. Sumir segja að unglingar hafi ekki nægan áhuga á stjórnmálum og vilji þar af leiðandi ekki fá kosningarétt 16 ára eða þá að þeir hafi ekki nógan þroska til að kjósa það sem þeim finnst réttast. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og þegar konur voru að berjast fyrir kosningarétti sínum fyrir meira en 100 árum. Það hefur sannað sig að konur eru jafn færar um að kjósa og karlar. Þetta gæti sýnt fram á að 16 ára unglingar séu jafn færir um að kjósa og fullorðið fólk.

Það eru aðrir sem segja að ef það á að færa kosningaaldurinn niður í 16 ár af hverju ekki að færa áfengisneyslu og sjálfræði niður í 16 ár. Í fyrsta lagi eru líffræðilegar ástæður fyrir því að unglingum er óheimilt að drekka áfengi. Í öðru lagi er refsiábyrgðin 15 ár og fólk byrjar að borga skatta 16 ára, það dytti engum í hug að færa það upp í 18 ár enda engin ástæða til þess.

Ég tel það að vilja ekki færa kosningaaldurinn úr 18 árum í 16 ár sé einfaldlega íhaldssemi og hræðsla við breytingar. Í mínu umhverfi vilja langflestir16 ára unglingar hafa áhrif á það sem gerist í kringum þá og verða ánægðari með niðurstöður úr þeim málum sem þeir hafa haft á einhvern hátt áhrif á. Við erum nógu þroskuð og við höfum eitthvað um það að segja í hvernig samfélagi við búum í.

Svava Guðný Helgadóttir er nemandi á 1. ári í Menntaskólanum á Akureyri.

UMMÆLI