Aðalstjórn Þórs hafnar slitum á samstarfssamningi Þórs og KA

 Aðalstjórn Þórs sendi í dag frá sér yfirlýsingu um málefni handboltans á Akureyri. Þar hafnar aðalstjórn Þórs slitum á samstarfssamningi Þórs og KA um rekstur Akureyri Handboltafélags.

Fyrr í þessari viku sendu félögin frá sér sameiginlega yfirlýsingu um samstarf félaganna. Þar kom fram að félögin hefðu mismunandi sýn á það hvernig best sé að standa að rekstri, samstarfi og uppbyggingu handboltans á Akureyri. KA ákvað í framhaldi af því að ekki væri frekari þörf á viðræðum og samstarfi félaganna undir merkjum Akureyrar handboltafélags. Sævar Pétursson og Valdimar Pálsson framkvæmdastjórar Þór og KA skrifuðu undir þá yfirlýsingu.

Sjá einnig: Yfirlýsing frá Þór og KA vegna samstarfsslita.

Hér að neðan má sjá yfirlýsinguna sem birtist á heimasíðu Þórs nú í morgun:

Aðalstjórn Þórs hafnar slitum á samstarfssamningi Þórs og KA um rekstur AHF. Með vísan til 4. greinar núgildandi samnings félaganna frá 11.11.2010 eru skilyrði ekki fyrir hendi til að slíta samstarfi félaganna. 
Aðalstjórn Þórs hyggst efna núgildandi samning milli félaganna um AHF.
Þór mun sjá um að skila inn þátttökutilkynningu fyrir AHF til HSÍ vegna keppnistímabilsins 2017-2018 og gera þannig ráðstafanir til að reyna að takmarka tjón AHF og Þórs vegna framgöngu KA í þessu máli.

Akureyri, 13.5.2017
F.h. Íþróttafélagsins Þórs

Árni Óðinsson formaður Íþróttafélagsins Þórs

UMMÆLI

Sambíó