Aðgerðarstjórn lögreglunnar á Norðurlandi eystra var virkjuð í gærkvöldi vegna storms sem gekk yfir svæðið. Þetta kemur fram á mbl.is
Jón Kristinn Valdimarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri segir í samtali við mbl.is að töluvert hafi verið um foktjón í bænum. Engin slys hafi þó orðið á fólki.
Sjá einnig: Mikið um útköll hjá lögreglunni vegna veðurs
„Það var talsvert um fokverkefni, trampólín, grindverk og þess háttar,“ segir Jón Kristinn í samtali við mbl.is en aðgerðastjórn lauk störfum skömmu eftir miðnætti. Flest útköll voru á Akureyri en björgunarsveitir sinntu einnig útköllum á Dalvík og í Svarfaðardal.
Jón Kristinn segir í samtali við fréttastofu RÚV að íbúar hafi ekki verið undirbúnir fyrir slíkan hvell vegna góðs veður undanfarið.
„Nei, þegar búið er að vera svona gott veður undanfarið þá hendir fólk út trampólínum og gleymir að það geti komið svona veður. Það þarf helst að ganga frá þessu strax. Þetta var dágóður hvellur og góð áminning,“ segir Jón Kristinn við RÚV.
UMMÆLI