Aðsókn í Sundlaug Akureyrar aukist um 300%

Frá vígslu nýju rennibrautanna.

Biðraðir hafa verið í nýju rennibrautirnar í Sundlaug Akureyrar frá því þær opnuðu í síðustu viku. Ef borin er saman aðsókn í sundlaugina fyrir og eftir vígslu brautanna kemur í ljós að hún hefur aukist um ríflega 300%.

Starfsmaður Sundlaugarinnar segir að krakkar séu mættir á morgnana klukkan 06:45 þegar sundlaugin opnar og fljótlega eftir það séu langar raðir farnar að myndast sem lifa til lokunar.

„N1 fótboltamótið var haldið helgina fyrir vígsluna og þá var pakkað hjá okkur alla dagana en ef við berum saman tvær venjulegar helgar, helgina fyrir N1 mótið og svo síðustu helgi, þá sést svart á hvítu að það hefur orðið algjör sprenging í aðsókninni,“ segir Ólafur Arnar Pálsson aðstoðarforstöðumaður Sundlaugar Akureyrar í samtali við heimasíðu Akureyrarbæjar.

Frá föstudeginum 30. júní til mánudagsins 3. júlí voru gestir lauganna 1.574 en þeir voru hvorki fleiri né færri en 5.105 frá föstudeginum 14. júlí til mánudagsins 17. júlí sem er 324% aukning. Varla þarf að velkjast í vafa um að það eru nýju vatnsrennibrautirnar Flækjan, Trektin og Fossinn sem skýra mest af þessari aukningu og má því segja að þær hafi slegið hressilega í gegn.

Rétt er að geta þess að engar vatnsrennibrautir hafa verið við sundlaugina í sumar fram að vígslu þeirra nýju og því sýnir þessi gríðarlega aukning e.t.v. fyrst og fremst hversu vinsælar vatnsrennibrautir yfir höfuð eru. Ef við hins vegar berum saman aðsókn á sama tíma síðasta sumar og núna, þá kemur í ljós að hún hefur aukist um tæp 60% og munar um minna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó