Æskuvinkonur gefa út bók saman: „Mjög stoltar af þessu afreki“

Æskuvinkonur gefa út bók saman: „Mjög stoltar af þessu afreki“

Akureyringarnir Alda Karen Hjaltalín og Silja Björk Björnsdóttir hafa gefið út Lífsbiblíuna saman. Lífsbiblían er hvatningarbók uppfull af skemmtilegum sögum sem veita innblástur, innsýn og gleði.

Alda Karen er framkvæmdarstjóri bandaríska vítamínfyrirtækisins Tiger Gummies, markaðsstjóri og vinsæll fyrirlesari. Hún hefur verið búsett í New York undanfarin þrjú ár en vegna kórónuveirufaraldursins hefur hún verið á Íslandi í ár og unnið að Lífsbiblíunni. 

Silja Björk er rithöfundur og kvikmyndafræðingur að mennt. Hún gaf út bókina Vatnið, gríman og geltið í fyrrasumar en sú bók fjallar um þunglyndi og leiðina að batanum og er byggð á dagbókarskrifum og upplifun Silju Bjarkar af sjúkdómnum. Silja Björk hefur einnig verið framarlega í geðbaráttunni á Íslandi síðustu ár.

Alda Karen og Silja Björk eru báðar ættaðar að norðan og kalla Akureyri sína uppeldisvöggu. Þær hafa þekkst alla ævi Öldu Karenar, sem er einu ári yngri, vegna þess að ömmur þeirra, þær Rósa og Heiða, eru bestu vinkonur. Þær gengu báðar í Menntaskólann á Akureyri og styrktust vináttubönd þeirra enn frekar þegar þær unnu saman í markaðsdeild framleiðslufyrirtækisins Sagafilm á sínum tíma. 

Það var snemma árs 2019 sem Alda Karen kom með þá hugmynd til Silju Bjarkar að skrifa bók. Upphaflega átti bókin að vera upp úr lítilli Lífsbiblíu sem Alda Karen prentaði fyrir fyrirlestur sinn í Eldborg 2018. Þegar Silja Björk fékk það skjal í hendurnar sá hún strax að hægt væri að gera eitthvað úr þessu efni, sem vel væri hægt að setja í margra blaðsíðna bók. 

Eftir fyrirlestur Öldu Karenar í Laugardalshöll í janúar 2019 byrjuðu þær að fullu vinnuna að nýju Lífsbiblíunni. Bókin var unnin með óhefðbundnum hætti en vinnuferlið var þannig að Alda Karen las inn á hljóðklippur, sendi Silju Björk gamlar dagbókarfærslur og efni og Silja Björk skrifaði upp eftir því.

„Það var mikið hlegið, oft líka grátið en um fram allt var ferlið gefandi, skemmtilegt og hvetjandi,“ segja þær í samtali við Kaffið. 

„Vinnan var mjög skemmtileg og gefandi og ég veit að við urðum nánari og betri vinkonur fyrir vikið,“ segir Silja Björk.

Í bókinni eru 50 sögur eða lífslyklar, þar sem hver og einn lykill er settur fram í skemmtilegri sögu. Þær fara yfir allt frá samskiptum yfir í heilann yfir í ástina og láta ekkert ósnert. Báðar segja þær frá leyndarmálum og vandræðalegum augnablikum, kostum sínum og göllum og nálgast efnið á mannlegan hátt.

„Það var auðvitað krefjandi að vinna bókina svona, þar sem ég tala og Silja Björk skrifar, en það gekk upp fyrir okkur, þó vanalega sé ekki farið svona að nema um ævisögu sé að ræða,” segir Alda Karen. 

Þær segjast báðar hafa lært mikið um sjálfar sig, bæði á þessu erfiða ári 2020 og sérstaklega í gegnum það að skrifa svona einlæga og berskjaldandi bók. Þær hafi báðar lært að húmor sé mjög öflugt tæki til að takast á við lífið og nota hann mikið í Lífsbiblíunni. 

„Það eru örugglega ekki margra aðrar svona bækur sem gera grín að samfélaginu, stjórnmálafólki og punkteruðum dekkjum eins og Lífsbiblían gerir,” segir Alda Karen.

„Já og ekki gleyma því hvað við gerum mikið gott grín að sjálfum okkur!” bætir Silja Björk við.

„En að öllu gríni slepptu, þá erum við mjög stoltar af þessu afreki og vonum að sögurnar okkar geti veitt öðrum innblástur til þess að hafa óbilandi trú á sjálfu sér, komast lengra hraðar og dýpra inn í sjálfið en nokkru sinni fyrr,” segir Silja Björk.

„Já, þetta eru sögur af okkur og við erum bara venjulegt fólk. Sögur eru svo öflugt tæki til þess að ná tengingu, læra eitthvað nýtt og finna innblástur. Við viljum með Lífsbiblíunni að fólk fái massa innblástur og vonandi meiri sjálfsþekkingu í leiðinni.” segir Alda Karen.

Lífsbiblían er komin í allar verslanir Hagkaups þar sem hún er bók mánaðarins, verslanir Pennans, í Nettó og í netsölu á www.lifsbiblian.is

Silja og Alda segja að forsala á bókinni hafi gengið vonum framar en 300 árituð eintök seldust á milli jóla og nýárs. 

Sambíó

UMMÆLI