Prenthaus

Ætlar að vera sem mest sólarmegin í umfjöllun um menn og málefni

Ætlar að vera sem mest sólarmegin í umfjöllun um menn og málefni

Fréttavefurinn Akureyri.net hóf göngu sína á nýjan leik á dögunum en fjölmiðlamaðurinn Skapti Hallgrímsson hefur tekið við ritstjórn vefsins.

Vefurinn fór í loftið aftur föstudaginn 13. nóvember síðastliðinni en hann hefur legið í dvala undanfarin ár. Skapti segist notast við slagorðið Oftast sólarmegin, bæði vegna þess að Akureyri er oftast sólarmegin, og svo vegna þess að hann ætli að vera sem mest sólarmegin í umfjöllun um menn og málefni.

„Ég hef verið spurður hvort ég óttist ekki að erfitt verði að finna nógu mikið efni til að halda úti vef sem þessum þar sem birt eru nokkrar fréttir eða greinar á hverjum degi, en það geri ég ekki; hér er alltaf eitthvað um að vera, bæði er hægt að segja hefðbundnar fréttir úr nærsamfélaginu og segja frá fjölbreyttu mannlífi. Fólk er að fást við margvíslega skemmtilega hluti hér og gamla góða vísan á við: Fólk vill lesa um fólk, hér sem annars staðar,“ segir Skapti.

„Ég hef líka sagt að Akureyri sé ekki verri miðja heimsins en aðrir staðir. Miðjan er sennilega þar sem hver og einn er hverju sinni. Ég hef í sjálfu sér aldrei litið þannig á, öll þessi ár í blaðamennsku, að ég sé í samkeppni við aðra fjölmiðla. Kúnstin er að vera samviskusamur, duglegur og að gera alltaf sitt besta. Það er svo lesenda – og auglýsenda – að skera úr um það hvort nógu vel er gert.“

Skapti Hallgrímsson er reynslumikill fjölmiðlamaður en hann starfaði áður á Morgunblaðinu í 36 ár og var tengdur þar inn í um 40 ár. Hann byrjaði að skrifa um íþróttir héðan frá Akureyri þegar hann var 17 ára, í fyrsta bekk í menntaskóla. Sumarið eftir stúdentspróf fékk hann svo sumarvinnu á íþróttadeild Moggans. Í kjölfarið bauðst honum svo fast starf og hann flutti suður til að sinna því.

„Ég ákvað að læra blaðamennsku af gömlum og góðum fagmönnunum þar frekar en fara í skóla. Langaði að flytja aftur norður 1985 eftir að ég fékk tilboð frá Degi, sem var að verða dagblað. Moggamenn sögðu: Nei, en þú getur farið norður – við stofnum Akureyrarskrifstofu. Við kærastan fluttum norður og ég startaði henni í desember 1985 en var svo kallaður aftur suður um það bil ári seinna. Var beðinn um að taka við stjórn íþróttadeildar og gerði það. Kallaður umsjónarmaður og síðar fréttastjóri – og var formaður Samtaka íþróttafréttamanna í ein átta ár. Var í starfi umsjónarmanns/fréttastjóra íþrótta á Mogganum í rúman áratug, þar til 1998 er ég hætti að eigin ósk og einbeitt mér að skrifum aftur.“

Skapti flutti heim til Akureyrar árið 2002 og skrifaði og myndaði fyrir allar deildir Morgunblaðsins þar til árið 2018. Þá lenti hann undir niðurskurðarhnífnum í einni sparnaðarhrinunni og var sagt upp.

„Strax eftir að mér var sagt upp hafði Þórhallur Jónsson í Pedromyndum samband við mig. Hann á lénið Akureyri.net, fréttavefur hafði verið starfræktur en lá niðri og hafði gert um nokkurt skeið. Þórhallur bauð mér lénið að láni en ég var ekki tilbúinn í slaginn strax. Eftir ýmis verkefni við skriftir, ljósmyndun og fararstjórn, fann ég í sumar að mig langaði aftur að sinna frétta- og greinaskrifum og lét vaða. Tók boði Þórhalls, hann lánaði mér lénið, ég lét hanna vefinn upp á nýtt og fór svo í loftið föstudaginn þrettánda nóvember. Þórhallur er viðurlegur bæjarfulltrúi og kemur því hvergi nálægt rekstrinum; ég rek vefinn sjálfur ásamt vini mínum og er einráður,“ segir Skapti.

Á vefnum Akureyri.net má nú þegar finna fjöldan allan af áhugaverðum fréttum, blaðagreinum og aðsendum greinum.

Sambíó

UMMÆLI