,,Ætlum að fá einn heimaleik í viðbót“

Benedikt Guðmundsson þjálfar Þór. Mynd: ÞórTV

Þórsarar halda suður yfir heiðar í dag og etja kappi við KR í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta. Þórsarar eru í frekar vondum málum, 2-0 undir í einvígi gegn ríkjandi Íslands-, deildar- og bikarmeisturunum og geta KR-ingar tryggt sér farseðil í undanúrslitin með sigri í kvöld.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, er einn reyndasti körfuboltaþjálfari landsins og stýrði meðal annars KR-ingum til Íslandsmeistaratitils þegar Jón Arnór Stefánsson, einn besti leikmaður Íslands frá upphafi, lék síðast hér á landi en hann er einmitt í KR í dag og hefur reynst Þórsurum erfiður í síðustu leikjum.

Benedikt segir Þórsliðið ætla sér að vinna í kvöld, þó ekki væri nema til að gefa Akureyringum einn körfuboltaleik í viðbót á þessari leiktíð.

,,Við erum ekki hættir. Við ætlum að reyna ná einum heimaleik í viðbót. Við verðum að vinna á þriðjudaginn og koma aftur í Höllina. Ég neita að þetta sé síðasti heimaleikurinn okkar í vetur,“ sagði Benedikt í samtali við undirritaðan eftir síðasta leik Þórs og KR.

,,Við trúum því að við getum tekið KR-ingana og fengið þá aftur norður. Það myndi gefa félaginu mikið að fá fleiri leiki þannig að áhorfendur fái annan leik í vetur og þurfi ekki að bíða til næsta veturs til að sjá strákana spila. Við ætlum að gera allt sem við getum til að fá fleiri leiki,“ segir Benedikt.

Stuðningurinn á Akureyri í vetur komið á óvart

Hátt í þúsund manns voru mættir í Íþróttahöll Akureyrar síðastliðinn laugardag og sáu Þórsara liggja í valnum fyrir KR. Benedikt er virkilega ánægður með stuðninginn sem liðið hefur fengið frá bæjarbúum í vetur og segir þróunina vera virkilega jákvæða.

,,Áhorfendur voru frábærir. Stuðningurinn á Akureyri í vetur hefur komið mér rosalega á óvart. Það er greinilega áhugi fyrir körfubolta hérna. Þetta var ekki svona því það var verið að spila í Síðuskóla fyrir framan 50 manns í mesta lagi fyrir tveimur árum. Þetta er virkilega jákvæð þróun. Akureyri er íþróttabær. Samstarfið hefur verið virkilega gott, það er búið að vera gott að vinna með öllum, handboltaþjálfurum og fleirum,“ segir Benedikt.

Leikur KR og Þórs hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Sambíó

UMMÆLI