Prenthaus

Áhlaupið á bílasölurnar 2018

Arnar Már Arngrímsson skrifar

Á Akureyri eru eitthvað á bilinu 10-20 þúsund bílar; fer dálítið eftir starfsdögum og fríum í Garðabæ. Rafbílar eru 9 eða 13 og að jafnaði eru 9 manns á gangi í bænum (fyrir utan börn á leið í og úr skóla). Ég er stundum einn af níumenningunum. Upp á síðkastið hef ég furðað mig á ljótleika bæjarins. Auðvitað er hann bara tímabundinn; götusóparinn og vorrigningarnar munu gera allt gott á ný. Það eru margir kostir við að keyra þessa dagana. Inni í hylkinu losnar maður við mengunina, sviðann í augunum og snarkið í nagladekkjunum.

Í gær, eða var það í fyrradag, fékk ég hugljómun. Mér varð ljóst að komið væri að vatnaskilum eða sársaukamörkum (en vissulega þarf maður að yfirgefa hylkið til að átta sig á því). Bílarnir voru orðnir of margir, hraðinn of mikill og hávaðinn. Þá heyri ég í útvarpinu að Íslendingar eigi sér draum um að segja skilið við bensínbílinn. Það hafði einhvern veginn farið fram hjá mér á göngu minni. Mér vöknaði nánast um augu. Ég var að upplifa sögulega tíma enn á ný, og einhverja þá stærstu sem um getur.

Vissulega man maður tímana tvenna; fyrir og eftir litasjónvarp, fyrir og eftir ritvélina, fyrir og eftir sígarettuna, fyrir netið og eftir bókina. En þetta með bensínbílinn var það stærsta og ánægjulegasta. En ó, hve lítilla sanda og sæva getur maður verið. Mér varð ljóst að á næstu dögum (þetta hugsaði ég) myndi almenningur gera áhlaup á bílasölurnar og grátbiðja sölumennina um að taka við Toyota Corolla (f. 1966- d. 2018)) og Land Cruiser (f. 1951 – d. 2018) og á einum degi sætu flest okkar uppi með verðlausa bensínbíla. Ég bjó yfir innherjaupplýsingum. Ég hefði enn tíma til að pranga mínum dásamlega RAV4 (2006, keyrður 141.000 – verð: 1,4 mills, upplýsingar í síma…) inn á einhvern vitleysing sem veit ekki það sem ég veit…

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó