Færeyjar 2024

Áhorfandi á Hrafnagilsvelli sparkaði í dómara

Áhorfandi á Hrafnagilsvelli sparkaði í dómara

Áhorfandi á leik Samherja og Léttis í fótbolta í gær missti stjórn á skapi sínu eftir leikinn. Maðurinn óð inn á völlinn og sparkaði í dómara leiksins. Leikurinn fór fram á Hrafnagilsvelli.

Frá þessu er greint á Fótbolta.net en þar segir að talið sé að umræddur aðili hafi tapað pening á því að veðja á leikinn. Dómari leiksins gaf Samherjum tvö rauð spjöld í leiknum sem lauk með 2-1 sigri Léttis.

„Sigurbjörn Hafþórsson dæmdi umræddan leik sem fram fór í 4. deildinni en áhorfandinn sat á tjaldstól meðan á leiknum stóð. Léttir vann 2-1 útisigur en eftir leikinn fór áhorfandinn inn á völlinn, með tjaldstólinn í annarri hendinni og sparkaði í Sigurbjörn,“ segir í umfjöllun Fótbolta.net.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var einnig hringt heim til dómarans eftir leik og málið er nú komið á borð lögreglu.

Sambíó

UMMÆLI