Akureyrarbær hefur ákveðið að framlengja ekki samning um rekstur öldrunarheimila sem fellur úr gildi um áramótin. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá 30. apríl.
Samkvæmt rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Akureyrarbæjar frá 2016 og þróunarsamningi frá júní 2019 fellur samningur um rekstur Akureyrarbæjar á hjúkrunarheimilum úr gildi 31. desember 2020. Bærinn mun ekki óska eftir framlengingu en óskað er eftir viðræðum um frámtíðarrekstur hjúkrunarheimila og dagþjónustu á Akureyri.
Það er von Akureyrarbæjar að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur hjúkrunarheimilanna um næstu áramót verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er, frekar að hún verði efld.
Í frétt á vef RÚV um málið segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar að aðdragandinn að þessu sé langur og afstaða bæjarstjórnar sé skýr.
„„Hún er einhuga í þessu máli að skila rekstrinum aftur til ríkisins. Það er ekki okkar lögbundna hlutverk að sinna rekstri öldrunarheimila og við getum ekki verið að borga 340 milljónir með rekstrinum ár hvert eins og staðan er í dag. Það er algjörlega útilokað mál“
UMMÆLI